Hlutabréf í Símanum voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland í dag. Eftir almennt útboð á hlutum í félaginu í síðustu viku varð niðurstaðan sú að Arion banki mun selja 21% hlut sinn í Símanum á meðalgenginu 3,33 krónur á hlut. Markaðsvirði alls hlutafjár í Símanum er um 32 milljarðar miðað við þá niðurstöðu.
Vegleg athöfn var haldin í húsakynnum Símans í morgun í tilefni skráningarinnar og voru þar viðstaddir m.a. Orri Hauksson forstjóri Símans og Páll Harðarson forstjóri Kauphallarinnar.
Hefði viljað selja hlutinn fyrr
Aðspurður segist Orri vera ánægður með skráningarferlið og segist spenntur fyrir að einbeita sér enn frekar að viðskiptavinum fjarskiptafélagsins. Aðdragandi skráningarinnar hefur verið gagnrýndur þó nokkuð vegna þess að í lok ágúst fengu nokkrir stjórnendur Símans auk annarra fjárfesta að kaupa samtals 5% hlut Arion banka í Símanum fyrir 2,5 krónur á hlut og nokkru síðar keypti hópur viðskiptavina bankans 5% hlut á genginu 2,8 krónur á hlut. Verðbilið á útboðinu var 2,7-31 krónur á hlut og varð meðalgengið eins og áður sagði 3,33 krónur á hlut.
Spurður að því hvort hann hefði viljað breyta einhverju í aðdraganda skráningarinnar segir Orri að til lengri tíma litið styrki það félagið að fá hóp alþjóðlegra fjárfesta að félaginu. Engu að síður hefði verið betra að salan hefði verið framkvæmd fyrr að hans mati.
VB Sjónvarp ræddi við Orra.
Nánar er fjallað um skráningu Símans í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .