Rekstur Rammagerðarinnar jafnaði sig vel á síðasta ári og var um það bil á pari við rekstur ársins 2019 að sögn Bjarneyjar Harðardóttur, eiganda félagsins. Hún segir Rammagerðina hafa velt tæpum einum og hálfum milljarði króna í fyrra, en til samanburðar var velta félagsins rétt rúmlega það árið 2019.

Hún segir neikvæð áhrif faraldursins ekki endanlega hafa heyrt sögunni til fyrr en sumarið 2022. „Fyrstu þrjá mánuði ársins voru sóttvarnartakmarkanir enn í gildi og áhrifa faraldursins gætti alveg fram í júní í fyrra. Í ljósi þess var mjög gaman að sjá hvað viðsnúningurinn var hraður en það var mjög mikilvægt fyrir rekstur félagsins.“

Einskiptiskostnaður vegna faraldursins hafi þó litað afkomu síðasta árs. „Við greiddum niður ýmsar Covid skuldir í fyrra, svo sem leigu og annað.“

Keyptu rótgróinn ullarvöruframleiðanda

Í lok síðasta sumars gengu eigendur Rammagerðarinnar frá kaupum á Glófa ehf., sem er stærsti framleiðandi á íslenskri ullarvöru hér á landi. Félagið var stofnað á Akureyri árið 1982 og var áður í eigu Páls Kr. Pálssonar og Helgu Lísu Þórðardóttur. Glófi framleiðir vörur undir eigin vörumerki, Varma, ásamt því að sinna framleiðslu á ullarvörum fyrir önnur íslensk fyrirtæki. Bjarney segir kaupin endurspegla trú eigenda Rammagerðarinnar á Glófa.

„Okkur fannst mjög áhugavert að þetta tiltölulega smáa framleiðslufyrirtæki væri að vinna ull í Ármúla og búa til í kringum framleiðsluna þetta glæsilega vörumerki sem Varma er. Við sáum mikil tækifæri í að byggja frekar upp þetta sterka vörumerki sem selur vörur sem eru framleiddar úr náttúrulegum íslenskum efnum. Fyrir um tvö hundruð árum síðan voru textílvörur helsta útflutningsvara Íslendinga og í kringum árið 1970 störfuðu um fimm þúsund manns í textíliðnaði hér á landi. Þetta var því eitt sinn stór atvinnugrein og við höfum trú á að hún geti náð fyrri hæðum.

Glófi framleiðir vörur fyrir alls konar merki á borð við Farmers Market, Kormák og Skjöld, 66° Norður og Rammagerðina og við munum að sjálfsögðu halda því áfram. Við trúum því að það sé hægt að styrkja Varma vörumerkið enn frekar og sömuleiðis vörulínuna. Til að styðja við þann vöxt sem við teljum félagið eiga inni réðum við Sigrúnu Höllu Unnarsdóttur sem listrænan stjórnanda. Hún hefur mikla þekkingu og reynslu af prjónahönnun og því frábært að fá hana til liðs við okkur. Páll heldur svo áfram að reka fyrirtækið en það ómetnalegt að halda hans þekkingu og hæfileikum inni í félaginu. Þessi félög, Rammagerðin og Glófi, styðja vel við hvort annað og Rammagerðin verður sem áður öflugur söluvettvangur fyrir Varma vörurnar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.