BYKO opnar nýtt sjálfsafgreiðslusvæði í verslun sinni í Breidd á morgun, 5.október, og er þar með fyrsta byggingavöruverslun landsins til að bjóða viðskiptavinum sínum upp á slíka þjónustu. Geta viðskiptavinir BYKO því nú komist hjá því að bíða í röð eftir afgreiðslu á kassa og afgreitt sig sjálfir í staðinn. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.
„Með innleiðingu sjálfsafgreiðslukassa er BYKO að mæta þörfum viðskiptavina sem vilja bjarga sér sjálfir og þeirra sem kjósa hraða afgreiðslu. Í fyrstu verður viðskiptavinum sem staðgreiða vörur kleift að nýta sjálfsafgreiðslukassana en fljótlega munu viðskiptavinir í reikningsviðskiptum einnig geta nýtt sér þjónustuna,“ segir í tilkynningunni.
Í kjölfar sjálfsafgreiðslusvæðis í verslun BYKO Breidd, muni verslunin á Akureyri einnig opna sjálfsafgreiðslu á þessu ári og svo muni hinar verslanir BYKO fylgja í kjölfarið.
Þá hefur BYKO einnig sett í loftið rafrænar tímabókanir fyrir persónulega ráðgjöf tilviðskiptavina. Um er að ræða pallaráðgjöf, litaráðgjöf, innréttingaráðgjöf og framkvæmdaráðgjöf.
„Að gera viðskiptavinum kleift að bóka og greiða fyrir ráðgjöf hvar og hvenær sem þeim hentar er mikilvægur þáttur í að bæta heildarupplifun viðskiptavina BYKO. Engu máli skiptir hvar fólk er staðsett því hægt er að fá ráðgjöf í verslun eða í gegnum video fundi.
Litaráðgjöf BYKO er glæný þjónusta við viðskiptavini sem geta nú bókað tíma hjá innanhússhönnuði til að fá aðstoð við velja réttu litina á sín persónulegu rými. Ferðalag BYKO inn í framtíðina er rétt að byrja og margar nýjungar framundan sem allar miða að því að bæta heildarupplifun viðskiptavina BYKO,“ segir að lokum í fréttatilkynningu BYKO.