Heilt yfir hefur 15,1 milljón króna verið veðjað á alþingiskosningarnar á Epicbet, þar af 9,5 milljónum á einstaka flokka, 3,4 milljónum á hvort viðkomandi komist inn á þing og 2,2 milljónum á næsta forsætisráðherra. Þetta segir Daði Laxdal Gautason hjá Epicbet.

Rétt rúmlega fimm hundruð notendur hafa veðjað á kosningarnar í gegnum Epicbet, frá þremur löndum. Langflestir þeirra koma frá Íslandi en einhverjir frá Noregi og Finnlandi.

Spurður út í vinsælustu veðmálin segir Daði vinsælast að veðja á hvort flokkur nái eða nái ekki ákveðnu fylgi. Einnig sé vinsælt að veðja á hvort viðkomandi einstaklingur komist inn á þing eða ekki, en Epicbet er með stuðla á yfir sjötíu manns í þeim flokki.

Þegar skoðanakannanir eru bornar saman við aðallínu flokkanna hjá veðbönkunum má sjá að Sjálfstæðisflokkurinn er metinn hærri í veðbönkum.

„Við höfum talið Sjálfstæðisflokkinn eiga töluvert inni miðað við skoðanakannanir og höfum verið harðir á að fylgi hans verði í kringum 16-17%. Svo eru aðrir flokkar sem hafa sveiflast mikið hjá okkur samhliða fylgisbreytingu og ber þar helst að nefna Samfylkingu þar sem línan hefur lækkað svakalega og förum við fljótlega að reikna með minna en 20% kosningu hjá þeim.

Hins vegar er það Viðreisn sem við höfum hækkað vænt fylgi töluvert. Við teljum Sósíalista ofmetna í könnunum og að Framsókn sé lítillega vanmetin. Þegar kemur að öðrum flokkum erum við að mestu leyti sammála könnunum.“

Talsmaður Coolbet á Íslandi tekur undir þetta og segir vinsælt meðal notenda veðbankans að veðja á að Sjálfstæðisflokkurinn verði „yfir“ ákveðinni prósentu.

„Línan [á Sjálfstæðisflokkinn] hefur alltaf verið hærri en í könnunum. Aðallínan hjá D fór um tíma upp í 18,5% en hefur svo tekið dýfu niður á við aftur, og stendur nú í 16,5%, líkt og í byrjun.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.