Sjóðstreymisreikningur í ársreikningi Handknattleikssambands Íslands (HSÍ) fyrir árið 2024 er „bersýnilega kolvitlaus og inniheldur augljósar villur“, samkvæmt Sævari Þór Sveinssyni sem heldur úti vefnum Utanvallar.is.
„Tólf einstaklingar kvittuðu undir ársreikning HSÍ fyrir árið 2024 með rafrænni undirskrift. Þetta voru stjórnarmeðlimir, framkvæmdastjóri, uppgjörsaðili og skoðunarmenn,“ segir í grein Utan vallar. Þar er fjallað ítarlega um fjármál HSÍ.
Sævar, sem fjallar um ýmis mál er varða fjármál í heimi íþrótanna, segir að í ljósi þess að rekstur HSÍ hafi verið þungur að undanförnu hafi hann gert ráð fyrir að hlutaðeigandi aðilar myndu skoða ársreikninginn gaumgæfilega.
„Þá hefði blasið við sjóðstreymi sem ekkert vit er í,“ segir Sævar. „Þetta er einnig nokkuð áhugavert í ljósi þess að handbært fé HSÍ í árslok 2024 var 43 þúsund krónur. Maður hefði haldið að það eitt og sér myndi skapa hvata í hlutaðeigandi aðilum að skoða hvað peningur HSÍ hefur farið í á liðnu ári. Það eru auðvitað margar leiðir til þess að gera það en sjóðstreymið er ein af þeim.“
Í greininni er bent á að samkvæmt ársreikningnum sé summa liðanna handbært fé til rekstrar, fjárfestingarhreyfingar og fjármögnunarhreyfingar neikvæð um 28,1 milljón króna. Það stemmi ekki við að handbært fé sambandsins hafi lækkað um 1,5 milljónir króna milli ára.
Sævar, sem útskrifaðist með BSc gráðu í viðskiptafræði í sumar, gerir sér litið fyrir og leiðréttir sjálfur sjóðstreymisreikninginn, líkt og sjá má í greininni.
HSÍ var rekið með 43,8 milljóna króna tapi árið 2024, samanborið við 85,6 milljóna tapi árið 2023. Eignir sambandsins voru bókfærðar á 66,8 milljónir króna í árslok 2024, eigið fé var neikvætt um 65,6 milljónir og skammtímaskuldir námu 132,4 milljónum.

© Aðsend mynd (AÐSEND)