Sjúkraþjálfun Íslands, stærsta sjúkraþjálfunarstofa landsins, og íslenska sprotafyrirtækið Euneo Health hafa náð samkomulagi um innleiðingu og þróun heilbrigðistæknilausnar sem styður sjúkraþjálfara í þágu skjólstæðinga þeirra.

Heilbrigðislausnir Euneo hjálpa fólki að fylgja heimaæfingum og taka virkan þátt í eigin meðferð. Lausnin gefur sjúkraþjálfurum betri innsýn í meðferð skjólstæðinga og hjálpar þeim að styðja betur við þau yfir allan meðferðartímann.

„Við viljum vera í fararbroddi þegar kemur að því að veita framúrskarandi þjónustu. Innleiðing á lausnum Euneo er liður í því að styrkja gæðastarf stofunnar og veita skjólstæðingum bestu lausnir sem völ er á,“ segir Ólafur Þór Guðbjörnsson, framkvæmdastjóri Sjúkraþjálfunar Íslands.

Euneo hlaut nýverið fjórar viðurkenningar á Íslensku vefverðlaununum í mars, þar á meðal Verkefni ársins og Stafræna lausn ársins.

„Við stöndum frammi fyrir áskorunum í heilbrigðismálum um allan heim, álag á heilbrigðisstarfsfólk eykst og biðlistar lengjast. Þessi þróun kallar á nýja nálgun, þar sem einstaklingar fá meiri stuðning til að taka virkan þátt í eigin meðferð. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að leggja okkar af mörkum í nánu og góðu samstarfi við Sjúkraþjálfun Íslands sem er leiðandi á sínu sviði,” segir Daníel Már Friðriksson, framkvæmdastjóri Euneo Health.