Andrew Bailey, seðlabankastjóri Englandsbanka, var spurður um fyrirhugaðar skattahækkanir breska Verkamannaflokksins á blaðamannafundi í morgun í kjölfar vaxtalækkunar bankans.
Skattar verða hækkaðir um 40 milljarða punda, jafnvirði nærri 7.200 milljarða króna, í Bretlandi samkvæmt fyrsta fjárlagafrumvarpi Verkamannaflokksins.
Bailey var meðal annars spurður sérstaklega um fyrirhugaða skatta á atvinnurekendur og þá sér í lagi svokallaðan NIC-skatt sem hækkar hlutfall atvinnurekenda í almannatryggingagreiðslum.
Bailey sagði „augljóst að þetta muni auka ráðningarkostnað“ og í raun væru bara fjórar leiðir fyrir bresk fyrirtæki að bregðast við þessu.
Fyrirtækin geta hækkað verð til viðskiptavina sinna, lækkað laun eða dregið úr launahækkunum, dregið úr ráðningum eða reynt að auka afköst.
Clare Lombardelli varaseðlabankastjóri sagði að það væri mjög mikil óvissa um hvernig fyrirtæki muni bregðast við þessari skattahækkun.
Englandsbanki væri búinn að gera ýmsa útreikninga bæði á verðhækkunum og launalækkunum sem gætu komið í kjölfarið.
„Við eigum von á því að þetta muni hafa mismunandi áhrif á mismunandi geira,“ sagði Lombardelli.
Samkvæmt The Guardian eru hagfræðingar í Bretlandi sammála um að skattahækkanirnar eigi eftir að hægja á vaxtalækkunarferli Englandsbanka.
Simon Roberts, forstjóri matvöruverslunarkeðjunnar Sainsbury‘s, sagði í morgun að fyrirhugaður skattur á atvinnurekendur muni vera verðbólguvaldandi.