Andrew Bail­ey, seðla­banka­stjóri Eng­lands­banka, var spurður um fyrir­hugaðar skatta­hækkanir breska Verka­manna­flokksins á blaða­manna­fundi í morgun í kjölfar vaxtalækkunar bankans.

Skattar verða hækkaðir um 40 milljarða punda, jafn­virði nærri 7.200 milljarða króna, í Bret­landi sam­kvæmt fyrsta fjár­laga­frum­varpi Verka­manna­flokksins.

Bail­ey var meðal annars spurður sér­stak­lega um fyrir­hugaða skatta á at­vinnu­rek­endur og þá sér í lagi svo­kallaðan NIC-skatt sem hækkar hlut­fall at­vinnu­rek­enda í al­manna­trygginga­greiðslum.

Bail­ey sagði „aug­ljóst að þetta muni auka ráðningar­kostnað“ og í raun væru bara fjórar leiðir fyrir bresk fyrir­tæki að bregðast við þessu.

Fyrir­tækin geta hækkað verð til við­skipta­vina sinna, lækkað laun eða dregið úr launa­hækkunum, dregið úr ráðningum eða reynt að auka af­köst.

Clare Lom­bar­delli vara­seðla­banka­stjóri sagði að það væri mjög mikil óvissa um hvernig fyrir­tæki muni bregðast við þessari skatta­hækkun.

Eng­lands­banki væri búinn að gera ýmsa út­reikninga bæði á verðhækkunum og launa­lækkunum sem gætu komið í kjölfarið.

„Við eigum von á því að þetta muni hafa mis­munandi áhrif á mis­munandi geira,“ sagði Lom­bar­delli.

Samkvæmt The Guardian eru hag­fræðingar í Bret­landi sammála um að skatta­hækkanirnar eigi eftir að hægja á vaxtalækkunar­ferli Eng­lands­banka.

Simon Roberts, for­stjóri mat­vöru­verslunar­keðjunnar Sains­bury‘s, sagði í morgun að fyrir­hugaður skattur á at­vinnu­rek­endur muni vera verðbólgu­valdandi.