Innviðaráðherra hefur boðað frumvarp þar sem lagt er til að undanþága orkumannvirkja frá fasteignamati verði felld niður. Samkvæmt áformunum myndi fasteignamat rafveitna hækka úr 82 milljörðum króna í 1.358 milljarða króna en í sviðsmyndum sem unnar hafi verið er gert ráð fyrir að fasteignaskattstekjur sveitarfélaga yrðu 3 eða 5 milljarðar króna árlega.

Samtök orkusveitarfélaga skiluðu inn umsögn um málið og fögnuðu þau áformum ráðherrans. Samtökin benda þó á að í áformunum sé ekki lögð til prósenta fasteignaskatts en þau leggja til að farið verði að fordæmi Norðmanna, sem starfshópur um skattlagningu orkuvinnslu fjallaði um í skýrslu sinni í janúar 2024, þannig að fasteignaskattsprósentan verði 0,7%.

Ef miðað yrði við það hlutfall myndu fasteignaskattstekjur ekki nema 3,4 milljörðum eins og fram kom í skýrslu KPMG þar sem miðað er við 0,25% álagningarhlutfall heldur 9,5 milljörðum króna.

Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja og orkufyrirtækin skiluðu einnig inn umsögnum en þar er tekið undir mikilvægi þess að ávinningur af orkuvinnslu skili sér í ríkari mæli til nærsamfélagsins en vanda þurfi til verka. Aðferðarfræðin sé til að mynda flókin og ófyrirsjáanleg en bent er á að við fasteignamat virkjana sé stuðst við tekjumat og því ekki verið að meta gangvirði fasteigna heldur rekstur fyrirtækjanna í heild.

Hvers kyns skattlagning þurfi að vera einföld og fyrirsjáanleg en Samorka telur brýnt að sú leið sem verði farin að auka hlut sveitarfélaga byggi fyrst og fremst á annars konar skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga og horft sé til jafnvægis milli atvinnugreina, skýrleika og fyrirsjáanleika í rekstrar- og fjárfestingarumhverfi. Áformin muni þá ekki hafa þau óæskilegu áhrif að draga úr samkeppnishæfni Íslands eða seinka nauðsynlegum orkuframkvæmdum. Vænlegast væri ef álagningarhlutfallið væri nær 0,2%.

Gefur ekki góð fyrirheit

Sveitarfélögin og Samorka eru einnig ósammála um það hvort einnig ætti að greiða fasteignaskatt af flutningsmannvirkjum á borð við raflínur en ráðherra leggur slíkt ekki til. Orkusveitarfélögin segja þó að með því gæti nærsamfélagið fengið fjárhagslegan hag af því að orkuflutningsmannvirki séu sett upp gæti það liðkað fyrir nauðsynlegri uppbyggingu.

Samorka leggst alfarið gegn þeim hugmyndum í sinni umsögn en í slíkri breytingu fælist einfaldlega aukin skattlagning á íbúa og fyrirtæki, þar sem gjaldskrár myndu lögum samkvæmt hækka. Þá greiði Landsnet þegar fyrir afnot af landi sem fer undir flutningsmannvirki. Áhersla sem birtist í umsögn orkusveitarfélaga gefi ekki góð fyrirheit um að sveitarfélög verði tilbúin til virkar og uppbyggilegrar þátttöku
í því samstarfi sem nauðsynlegt er til að auka orkuframleiðslu hér á landi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.