Innviðaráðherra hefur boðað frumvarp þar sem lagt er til að undanþága orkumannvirkja frá fasteignamati verði felld niður. Hingað til hafa orkufyrirtækin aðeins þurft að greiða fasteignaskatt af hluta sinna eigna.

Samkvæmt áformunum myndi fasteignamat rafveitna hækka úr 82 milljörðum króna í 1.358 milljarða króna og er þar miðað við gangvirðismat. Í sviðsmyndum sem unnar hafi verið sé gert ráð fyrir að fasteignaskattstekjur sveitarfélaga yrðu 3 eða 5 milljarðar króna árlega.

Eins og staðan er í dag greiða orkufyrirtæki allt að 1,65% af fasteignamati virkjanamannvirkja, eins og með aðrar atvinnueignir, í fasteignaskatt en nú er gert ráð fyrir að nýtt skattþrep verði tekið upp. Í skýrslu verkefnahóps sem samanstóð af sérfræðingum KPMG, COWI og Gnaris og sett var fram í samstarfi við sérfræðinga HMS er miðað við að nýtt álagningarhlutfall yrði 0,25% en tekið er fram að endanlegt álagningarhlutfall yrði ákvarðað í lögum og því einungis um dæmi að ræða. Hagsmunaaðilar hafa þó kallað eftir hærri prósentu.

Virkjanir yrðu metnar sem ein heild og gangvirðismat byggt á núvirtu fjárstreymi byggt á opinberum gögnum og almennum forsendum. Fasteignaskattstekjur með 0,25% álagningu yrðu alls 3.395 milljónir króna, þar af 2.527 milljónir vegna vatnsaflsvirkjanna, 867 milljónir vegna jarðvarmavirkjana en 0,77 milljónir vegna vindorkuvirkjana.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.