Skattheimta á banka er umtalsvert hærri hér á landi heldur en í samanburðarríkjum, samkvæmt niðurstöðum úttektar Intellecon.
Skattheimta sem hlutfall af áhættuvegnum eignum er um 1,18% á Íslandi, en að meðaltali 0,46% á hinum Norðurlöndunum og 0,39% sé litið til allra Evrópulandanna. Skattlagning íslenskra banka á þennan mælikvarða var því tvö- til þreföld á við það sem viðgengst almennt í Evrópu.
Íslensk fjármálafyrirtæki greiða þrjá sérstaka skatta sem leggjast ofan á laun, skuldir og hagnað þeirra til viðbótar við gjöld til að standa undir rekstri bæði Fjármálaeftirlitsins og Umboðsmanns skuldara.
Sé einungis horft á greiddan tekjuskatt sem inniheldur einnig viðbótartekjuskatt á fjármálafyrirtæki, er Ísland einnig efst í samanburði við önnur Evrópuríki. Greiddur tekjuskattur nemur 0,93% af áhættuvegnum eignum hér á landi.
Í úttektinni er vakin athygli á því að áhættuvegnar eignir séu hlutfallslega mjög háar sem hlutfall af heildareignum eru hér á landi miðað við Evrópu, sér í lagi í samanburði við hin Norðurlöndin.
Þá er kostnaður af óvaxtaberandi bindiskyldu fjármálafyrirtækja hár í alþjóðlegum samanburði, en hann er áætlaður um 0,25% af áhættuvegnum eignum íslensku bankanna.
Í skýrslunni er lagt mat á svokallað Íslandsálag á útlán bankanna, sem á við um allar þær álögur sem lagðar eru á innlend fjármálafyrirtæki í formi sértækra skatta, hærri eiginfjárkrafna og óvaxtaberandi bindiskyldu. Íslandsálagið var metið á allt að 0,96–1,15 prósentustig.
Hærri eiginfjárkröfur og eiginfjáraukar vega þyngst í Íslandsálaginu. Eiginfjárhlutfall íslenska bankakerfisins er það hæsta í Evrópu og umtalsvert hærra en á hinum Norðurlöndunum samkvæmt úttektinni.
Gunnar Haraldsson, framkvæmdastjóri Intellecon, segir að kröfur um eigin fé séu nauðsynlegar og háðar aðstæðum á hverjum tíma og markaði fyrir sig. Um leið þurfi þó að vega saman umfang og ábata eiginfjárkrafna.
Fjallað er nánar um málið í Viðskiptablaði vikunnar.