Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur samþykkt kaup Archer Norge AS og Kaldbaks ehf. á öllum hlutum í Jarðborunum hf., en eftirlitið mat sem svo að í kaupunum fælist samruni.

Mat SKE er að samruninn muni ekki hafa þau áhrif að hann styrki markaðráðandi stöðu samrunaaðila á markaði málsins, eða raski samkeppni að öðru leyti með umtalsverðum hætti. „Af þeim sökum er það niðurstaða eftirlitsins að ekki sé ástæða til að aðhafast vegna þessa samruna.“

Þann 10. ágúst var SKE tilkynnt um fyrirhugaðan samruna Archer Norge AS, Kaldbaks ehf. og Jarðborana hf. Við meðferð málsins átti SKE samtöl við nokkra af helstu hagaðilum málsins, meðal annars viðskiptavini Jarðborana sem almennt gerðu ekki athugasemdir við samrunann.

Alþjóðlega bor- og þjónustufyrirtækið Archer Ltd. keypti 50% hlutafjár í Jarðborunum hf. fyrir 8,25 milljónir dala í byrjun ágúst síðastliðinum. Seljendur eru félagið SF III í rekstri Stefnis ásamt öðrum ónefndum innlendum hluthöfum, en eftir viðskiptin verður félagið í jafnri eigu Archer og fjárfestingarfélagsins Kaldbaks, dótturfélags Samherja.

Meginstarfsemi Jarðborana er að eiga og reka jarðbora og hvers kyns tæki og áhöld sem nauðsynleg eru til að stunda jarðboranir. Félagið starfar að mestu við framkvæmdir tengdar nýtingu auðlinda í jörðu til framleiðslu á endurnýjanlegri orku, einkum í jarðhita- og kjarnaborunum. Á Íslandi hefur félagið starfað fyrir stærstu orkufyrirtæki landsins, s.s. Landsvirkjun, HS Orku hf. og Orku Náttúrunnar ohf. Erlend umsvif félagsins hafa sömuleiðis verið töluverð og er félagið meðal annars með starfsemi í Azor-eyjum og á Nýja-Sjálandi.

Archer Norge er norskt félag sem þjónustar olíu og gasiðnaðinn í Noregi og felst starfsemi þess nánast að öllu leyti í verkefnum fyrir borpalla undan ströndum Noregs. Félagið er með starfsemi á 45 olíuborpöllum víðs vegar um heim og rekur 81 bor á landi í Suður-Ameríku.