Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur sent kjötafurðastöðvum og samtökum þeirra bréf í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur um að fella úr gildi breytingar á búvörulögum, þar sem eftirlitið leggur fyrir þær kjötafurðastöðvar sem hafa ráðist í samruna eða samstarf á grundvelli undanþáguheimilda samkeppnislaga að varðveita allar upplýsingar og gögn sem varpa ljósi á þá háttsemi sem í hlut á.

„Í því sambandi er vakin athygli á því að það getur varðað fyrirtæki stjórnvaldssektum og einstaklinga refsingu að koma undan eða gera á annan hátt ónothæf gögn sem hafa þýðingu í síðari rannsóknum,“ segir í tilkynningu á vef SKE.

Eftirlitið beinir þeim skilaboðum einnig til kjöafurðastöðva að stöðva þegar í stað hvers konar aðgerðir eða háttsemi sem farið getur gegn samkeppnislögum og stofnast hefur til á grundvelli umræddra undanþáguheimilda.

Ofangreind tilmæli gætu meðal annars átt við um kaup Kaupfélags Skagfirðinga á öllu hlutafé Kjarnafæðis Norðlenska.

Í bréfinu er jafnframt óskað eftir upplýsingum hvort viðkomandi fyrirtæki hafi verið skilgreint sem framleiðendafélag í skilningi búvörulaga, en samkvæmt lagabreytingunum var það forsenda þess að kjötafurðastöðvar gætu nýtt sér undanþáguheimildirnar.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp í gær, er komist að þeirri niðurstöðu að nýlegar undanþágur frá samkeppnislögum, sem heimila kjötafurðastöðvum að sameinast og hafa tiltekið samráð sín á milli, stríði gegn stjórnskipunarlögum og hafi því ekki lagagildi.

Í tilefni af dóminum ritaði Samkeppniseftirlitið kjötafurðastöðvum og samtökum þeirra bréf.

„Í þeim er vakin athygli á því að samkvæmt dómi héraðsdóms samræmdust undanþáguheimildir búvörulaga ekki stjórnskipunarlögum og öðluðust því ekki lagagildi. Vegna þessa gildi samkeppnislög því fullum fetum um samstarf og samruna kjötafurðastöðva. Hafi kjötafurðastöðvar því ekki notið neinnar undanþágu frá ákvæðum samkeppnislaga,“ segir í frétt á vef SKE.

„Jafnframt er vakin athygli á því samkeppnislög banna samninga og samþykktir milli fyrirtækja sem raska samkeppni, sem og samkeppnishömlur af hálfu samtaka fyrirtækja. Einnig er vakin athygli á því að tilkynna þarf Samkeppniseftirlitinu fyrirfram um samruna fyrirtækja yfir tilteknum veltumörkum. Þá leggja samkeppnislög bann við því að samruni komi til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann.“

SKE gefur kjötafurðastöðvum kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sem nýtast kunna við athugun á því hvernig bregðast skuli við dómi héraðsdóms.