Skel fjárfestingarfélag hagnaðist um 196 milljónir króna eftir skatta á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 574 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri Skeljar, segir í uppgjörstilkynningu að afkoman litist af sveiflum á hlutabréfamörkuðum en verðlækkun á skráðum hlutabréfum félagsins nam 214 milljónum á fjórðungnum.

Afkoma rekstrarfélaga Skeljar, þ.e. Skeljungi, Orkunni og Galloni, nam 578 milljónum á þriðja fjórðungi. Framlegð rekstrarfélaganna þriggja nam 2,7 milljörðum samanborið við 2,0 milljarða á þriðja fjórðungi 2021.

Fjárfestingartekjur Skeljar námu 509 milljónum á fjórðungnum. Rekstrargjöld voru 334 milljónir.

Afkoma Skeljar eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins nemur 5.135 milljónum en áætluð afkoma fyrir árið í heild er 7,6-8,3 milljarðar króna í samræmi við áður útgefna afkomuspá félagsins.

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri Skeljar:

„Afkoma þriðja ársfjórðungs litast af sveiflum á hlutabréfamörkuðum. Verðlækkun á skráðum hlutabréfum félagsins nam 214 m.kr. á fjórðungnum. Á sama tímabili var góð afkoma hjá Skeljungi, Orkunni og Galloni, þ.e. rekstrarfélögunum sem eru að fullu í eigu SKEL, en hún nam samtals 578 m.kr. EBITDA SKEL og rekstrarfélaga fyrir fyrstu 9 mánuði ársins er 2.981 m.kr. Áður hefur verið gefið út að áætluð EBITDA fyrir árið í heild væri á bilinu 3.200 til 3.600 m.kr.

Þegar horft er yfir eignasafnið þá eru nokkur atriði sem við teljum vera mjög jákvæð á fjórðungnum.

Orkan keypti hlut í raforkusölufyrirtækinu Straumlind. Við teljum að gildi og sýn Straumlindar og Orkunnar falli vel hvort að öðru. Fjöldi viðskiptavina Straumlindar hefur meira en fimmfaldast á þessu ári og af þeim heimilum sem skiptu um raforkusala á þessu ári hafa yfir helmingur þeirra valið Straumlind. Samstarf félaganna mun flýta verulega fyrir auknu vöruframboði samstæðunnar á raforku.

Skeljungur undirritaði kaupsamning um hlut í Kletti. Samhliða keypti SKEL fasteignirnar sem hýsa félagið. Kaupin bíða samþykki Samkeppniseftirlitsins. Líkt og Skeljungur er Klettur rótgróið fyrirtæki sem byggt er upp utan um alþjóðleg vörumerki. Kaupin eru stefnumarkandi og liður í uppbyggingu á fyrirtæki sem þjónustar íslenskt atvinnulíf á breiðum grunni.

Kaldalón setti fram stefnu um markmiðadrifinn vöxt fram að skráningu á aðalmarkað á liðnum fjórðungi. Í framhaldi af því var hlutafé aukið um 4 milljarða að markaðsvirði. SKEL fagnar aðkomu breiðs hóps fjárfesta að félaginu og telur umtalsverð tækifæri felast í sterkum efnahag á komandi misserum.

VÍS tilkynnti að félagið hafi sótt um heimild til endurkaupa á hlutafé og áætlanir um frekari sókn inn á eignastýringarmarkað. Líkt og áður þá teljum við tækifæri hjá félaginu í breiðara þjónustuframboði á grunni sterks vörumerkis, stórum viðskiptavinagrunni og farsælli viðskiptasögu.

Rekstur Magn í Færeyjum gengur vel og er útlit fyrir að árið 2022 verði umfram væntingar. Þann 25. október tilkynnti SKEL að samkomulag hafi náðst við fjárfesti í Færeyjum um kaup á meirihluta í Orkufélaginu. Samkomulagið er háð hefðbundnum fyrirvörum, svo sem um gerð áreiðanleikakönnunar, afkomu ársins, samþykki þarlendra yfirvalda og skjalagerð. Umsamið kaupverð eignarhlutar SKEL er 146 m.DKK. Salan er liður í þeirri stefnumörkun að gera eignasafn SKEL minna háð jarðefnaeldsneytissölu.“