Hlutabréfaverð fjárfestingafélagsins Skeljar lækkaði um 5,5% við opnum markaða í morgun en félagið greindi frá því í gærkvöldi að Samkaup, sem rekur verslanir Nettó, hafi slitið samrunaviðræðum við tiltekin félög í samstæðu Skeljar (Orkunnar, Löðurs og Heimkaupa).
Gengi félagsins stendur í 17 krónum þegar þetta er skrifað en tvö 33,6 milljón króna viðskipti á genginu 16,8 krónur fóru í gegn skömmu eftir opnun markaða.
Hlutabréfaverð Skeljar hefur nú lækkað um 10% síðastliðinn mánuð.
Samkvæmt Kauphallartilkynningu gærkvöldsins gerði Skel kröfu um að hluthafar Samkaupa myndu auka hlutafé félagsins fyrir samruna.
Stjórn Samkaupa féllst ekki á þá kröfu og sleit því viðræðunum. Í tilkynningu Skeljar í gær segir að Samkaup hafi mætt rekstrarlegum áskorunum það sem af er ári.
Það sama á við um matvörueiningar Heimkaupa, en Heimkaup töpuðu 241 milljón króna á fyrri árshelmingi, sem litaðist m.a. af opnun Prís.
„Við fjárfestum miklum tíma og undirbúningi í að koma á laggir þriðja stóra aflinu á íslenskum smásölumarkaði. Það eru því óneitanlega vonbrigði að það hafi ekki reynst fjárhagslegar forsendur fyrir því verkefni að þessu sinni,“ sagði Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri Skeljar.
„Við teljum að neytendur kalli eftir endurnýjun á matvörumarkaði, eins og nýleg opnun Prís sýnir. Í einfaldri mynd þá töldum við rétt og eðlilegt að dregið yrði úr áhættu í rekstri sameinaðs félags með innspýtingu eiginfjár og á það var ekki fallist. Við teljum að allir aðilar hafi unnið sín verkefni í þessu ferli af fullum heilindum og óskum Samkaup velfarnaðar í sinni vegferð.“
Ásgeir benti á að fjárfestingarfélagið eigi enn óbeinan 5% hlut í Samkaupum. Hann sagði jafnframt að Skel muni áfram fylgjast náið með þróun Samkaupa.