Hluta­bréfa­verð fjár­festingafélagsins Skeljar lækkaði um 5,5% við opnum markaða í morgun en félagið greindi frá því í gærkvöldi að Sam­kaup, sem rekur verslanir Nettó, hafi slitið sam­runa­viðræðum við til­tekin félög í sam­stæðu Skeljar (Orkunnar, Löðurs og Heim­kaupa).

Gengi félagsins stendur í 17 krónum þegar þetta er skrifað en tvö 33,6 milljón króna við­skipti á genginu 16,8 krónur fóru í gegn skömmu eftir opnun markaða.

Hlutabréfaverð Skeljar hefur nú lækkað um 10% síðastliðinn mánuð.

Samkvæmt Kauphallartilkynningu gærkvöldsins gerði Skel kröfu um að hlut­hafar Sam­kaupa myndu auka hluta­fé félagsins fyrir sam­runa.

Stjórn Sam­kaupa féllst ekki á þá kröfu og sleit því viðræðunum. Í til­kynningu Skeljar í gær segir að Sam­kaup hafi mætt rekstrar­legum áskorunum það sem af er ári.

Það sama á við um mat­vöru­einingar Heim­kaupa, en Heim­kaup töpuðu 241 milljón króna á fyrri árs­helmingi, sem litaðist m.a. af opnun Prís.

„Við fjár­festum miklum tíma og undir­búningi í að koma á lag­gir þriðja stóra aflinu á ís­lenskum smásölu­markaði. Það eru því óneitan­lega von­brigði að það hafi ekki reynst fjár­hags­legar for­sendur fyrir því verk­efni að þessu sinni,“ sagði Ás­geir Helgi Reyk­fjörð Gylfa­son, for­stjóri Skeljar.

„Við teljum að neyt­endur kalli eftir endur­nýjun á mat­vöru­markaði, eins og ný­leg opnun Prís sýnir. Í ein­faldri mynd þá töldum við rétt og eðli­legt að dregið yrði úr áhættu í rekstri sam­einaðs félags með inn­spýtingu eigin­fjár og á það var ekki fallist. Við teljum að allir aðilar hafi unnið sín verk­efni í þessu ferli af fullum heilindum og óskum Sam­kaup vel­farnaðar í sinni veg­ferð.“

Ásgeir benti á að fjárfestingarfélagið eigi enn óbeinan 5% hlut í Samkaupum. Hann sagði jafnframt að Skel muni áfram fylgjast náið með þróun Samkaupa.