OMXI10 úrvalsvísitalan hækkaði um 2,2% í dag og hefur hún hækkað um 4,5% síðastliðna viku. Gengi 14 af 22 félögum á aðalmarkaði hækkaði í viðskiptum dagsins.

Skel fjárfestingafélag hækkaði mest allra félaga, eða um 6,25% í 27 milljón króna viðskiptum. Þá hækkaði Marel um 3,75%, Vís um 3,15% og Hagar um 2,85%. Icelandair hækkaði um 2,6% og stendur gengi bréfa félagsins nú í 1,97 krónum á hlut.

Fimm félög á aðalmarkaði lækkuðu í viðskiptum dagsins. Þar af lækkaði Ölgerðin um 0,9% og Reginn um 0,7% í óverulegum viðskiptum. Sýn lækkaði þá um rúm 0,85%, Origo um 0,6% og Nova um 0,5% í 900 þúsund króna veltu.

Heildarvelta á markaði nam 4,2 milljörðum króna. Þar af var mesta veltan með bréf stóru viðskiptabankanna á markaði. Námu viðskipti með bréf Arion banka 950 milljónum króna og viðskipti með bréf Íslandsbanka 920 milljónum.

Fremur lítil velta var á First-North markaðnum. Solid Clouds lækkaði um 2,5% í 80 þúsund króna viðskiptum og Alvotech hækkaði um 1,1% í 16 milljóna viðskiptum.