Viðskiptaráð Íslands hefur mótað 60 tillögur um hvernig megi hagræða í rekstri ríkissjóðs og skilað þeim til nýrrar ríkisstjórnar í samræmi við verkefni stjórnarinnar um hagsýni í rekstri ríkisins.
Samanlagtskila tillögurnar hagræðingu sem nemur 122 milljörðum króna en hagræðingin jafngildir beinum jákvæðum áhrifum tillagnanna á afkomu ríkissjóðs.
„Svigrúmið sem myndast má síðan nýta til að lækka opinber útgjöld og skatta – eða auka umfang opinberrar þjónustu án þess að auka heildarútgjöld,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs.
Hagræðingartillögur Viðskiptaráðs skiptast í sex flokka:
- Sala ríkiseigna: 11 tillögur um sölu ríkisfyrirtækja að sumu eða öllu leyti fyrir samtals 560 ma. kr. Eignasalan lækkar vaxtagjöld ríkissjóðs um 36 ma. kr. á ári ef söluandvirðið er notað til niðurgreiðslu skulda.
- Starfsmannahald: 4 tillögur um bætt umhverfi í tengslum við starfsmannahald sem spara 32 ma. kr. á ári, þ.e. að vinnutími, veikindafjarvistir, orlof og uppsagnarvernd hjá ríkinu verði jafnað við einkageirann.
- Niðurlagning verkefna: 12 tillögur um niðurlagningu verkefna sem spara 24 ma. kr. á ári. Þar má t.d. nefna afnám niðurgreiðslna til rafbílakaupa, aukið frjálsræði í tengslum við áfengissölu og veðmálastarfsemi, afnám styrkja til stjórnmálasamtaka og afnám styrkja til fjölmiðla.
- Kjarasamningsaðgerðir: 4 tillögur um að undið verði ofan af þeirri útgjaldaaukningu sem fyrri ríkisstjórn stofnaði til í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sem sparar 14 ma. kr. á ári.
- Stofnanasameiningar: 20 tillögur um sameiningar stofnana sem fækka þeim úr 168 niður í 68 og skila samtals 11 ma. kr. hagræðingu á ári. Til dæmis að starfsfólk ráðuneyta tilheyri allt Stjórnarráði Íslands, að sýslumannsembættin verði sameinuð í eitt og að rekstur níu safna verði sameinaður í einni stofnun.[1]
- Rekstrarhagræðing: 9 tillögur um hagræðingu í rekstri ríkisins sem spara 5 ma. kr. á ári. Til dæmis þak á endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, samdrátt í rekstri samkeppnissjóða og fækkun styrkja til frjálsra félagasamtaka.
„Framangreindar tillögur sýna að umtalsvert svigrúm er til staðar þegar kemur að hagræðingu í rekstri ríkissjóðs. Áhrifamestu aðgerðirnar snúa að endurskoðun á skipulagi verkefna ríkisins. Almennari tillögur um rekstrarhagræðingu skila minni ávinningi. Mesti árangurinn mun því nást ef ný ríkisstjórn kemur sér saman um stefnumarkandi hagræðingaraðgerðir,” segir í umsögn Viðskiptaráðs.
Þá hvetur Viðskiptaráð ríkisstjórnina til að reka kostnaðarsömustu opinberu kerfin, almannatrygginga-, heilbrigðis- og menntakerfin, með sem hagkvæmustum hætti.
„Í heilbrigðisþjónustu má til dæmis byggja á góðri reynslu af einkareknum heilsugæslum. Í þjónustukönnunum raða þær sér í fjögur efstu sætin fjórða árið í röð. Þá er íslenska grunnskólakerfið eitt það dýrasta á meðal OECD-ríkja en námsárangur sá næstlakasti í Evrópu. Auka má hagkvæmni menntakerfisins með upptöku samræmds lokamats í grunnskólum, hærri kennsluskyldu og auknu vægi sjálfstætt starfandi skóla. Þá ætti að innleiða virkt endurmat á starfsgetu einstaklinga á örorku með það fyrir augum að hvetja til virkni og lækka kostnað, en um leið fylgja betur eftir stuðningi við einstaklinga með örorku.”
Viðskiptaráð leggur einnig til fjórar tillögur að hagræðingu í starfsmannahaldi ríkisins. Þær eru að vinnutími, veikindafjarvistir, uppsagnarvernd og orlofsréttur verði færð til jafns við einkageirann. Tillögurnar skila 32 ma. kr. hagræðingu árlega.
Viðskiptaráð leggur síðan fram 12 tillögur um verkefni sem ríkið getur lagt niður. Tillögurnar snúa að því að leggja niður ýmsa styrki, auka atvinnufrelsi, draga úr samkeppnisrekstri ríkisins og að stofnanir verði lagðar niður. Þetta skilar 24 ma. kr. í hagræði árlega
Hægt er að lesa tillögurnar í heild sinni hér.