Við­skiptaráð Ís­lands hefur mótað 60 til­lögur um hvernig megi hag­ræða í rekstri ríkis­sjóðs og skilað þeim til nýrrar ríkis­stjórnar í samræmi við verk­efni stjórnarinnar um hagsýni í rekstri ríkisins.

Saman­lagtskila til­lögurnar hag­ræðingu sem nemur 122 milljörðum króna en hag­ræðingin jafn­gildir beinum jákvæðum áhrifum til­lagnanna á af­komu ríkis­sjóðs.

„Svigrúmið sem myndast má síðan nýta til að lækka opin­ber út­gjöld og skatta – eða auka um­fang opin­berrar þjónustu án þess að auka heildarút­gjöld,“ segir í um­sögn Við­skiptaráðs.

Hag­ræðingar­tillögur Við­skiptaráðs skiptast í sex flokka:

  1. Sala ríkis­eigna: 11 til­lögur um sölu ríkis­fyrir­tækja að sumu eða öllu leyti fyrir sam­tals 560 ma. kr. Eigna­salan lækkar vaxta­gjöld ríkis­sjóðs um 36 ma. kr. á ári ef sölu­and­virðið er notað til niður­greiðslu skulda.
  2. Starfs­manna­hald: 4 til­lögur um bætt um­hverfi í tengslum við starfs­manna­hald sem spara 32 ma. kr. á ári, þ.e. að vinnutími, veikinda­fjar­vistir, or­lof og upp­sagnar­vernd hjá ríkinu verði jafnað við einka­geirann.
  3. Niður­lagning verk­efna: 12 til­lögur um niður­lagningu verk­efna sem spara 24 ma. kr. á ári. Þar má t.d. nefna af­nám niður­greiðslna til raf­bíla­kaupa, aukið frjáls­ræði í tengslum við áfengissölu og veðmála­starf­semi, af­nám styrkja til stjórn­mála­sam­taka og af­nám styrkja til fjölmiðla.
  4. Kjara­samningsað­gerðir: 4 til­lögur um að undið verði ofan af þeirri út­gjalda­aukningu sem fyrri ríkis­stjórn stofnaði til í tengslum við gerð kjara­samninga á al­mennum vinnu­markaði, sem sparar 14 ma. kr. á ári.
  5. Stofnana­sam­einingar: 20 til­lögur um sam­einingar stofnana sem fækka þeim úr 168 niður í 68 og skila sam­tals 11 ma. kr. hag­ræðingu á ári. Til dæmis að starfs­fólk ráðu­neyta til­heyri allt Stjórnarráði Ís­lands, að sýslu­mannsem­bættin verði sam­einuð í eitt og að rekstur níu safna verði sam­einaður í einni stofnun.[1]
  6. Rekstrar­hag­ræðing: 9 til­lögur um hag­ræðingu í rekstri ríkisins sem spara 5 ma. kr. á ári. Til dæmis þak á endur­greiðslur vegna kvik­mynda­gerðar, sam­drátt í rekstri sam­keppnis­sjóða og fækkun styrkja til frjálsra félaga­sam­taka.

„Framan­greindar til­lögur sýna að um­tals­vert svigrúm er til staðar þegar kemur að hag­ræðingu í rekstri ríkis­sjóðs. Áhrifa­mestu að­gerðirnar snúa að endur­skoðun á skipu­lagi verk­efna ríkisins. Al­mennari til­lögur um rekstrar­hag­ræðingu skila minni ávinningi. Mesti árangurinn mun því nást ef ný ríkis­stjórn kemur sér saman um stefnu­markandi hag­ræðingarað­gerðir,” segir í um­sögn Við­skiptaráðs.

Þá hvetur Við­skiptaráð ríkis­stjórnina til að reka kostnaðarsömustu opin­beru kerfin, al­manna­trygginga-, heil­brigðis- og mennta­kerfin, með sem hag­kvæmustum hætti.

„Í heil­brigðisþjónustu má til dæmis byggja á góðri reynslu af einka­reknum heilsugæslum. Í þjónustukönnunum raða þær sér í fjögur efstu sætin fjórða árið í röð. Þá er ís­lenska grunnskóla­kerfið eitt það dýrasta á meðal OECD-ríkja en námsárangur sá næstlakasti í Evrópu. Auka má hag­kvæmni mennta­kerfisins með upp­töku samræmds loka­mats í grunnskólum, hærri kennslu­skyldu og auknu vægi sjálf­stætt starfandi skóla. Þá ætti að inn­leiða virkt endur­mat á starfs­getu ein­stak­linga á ör­orku með það fyrir augum að hvetja til virkni og lækka kostnað, en um leið fylgja betur eftir stuðningi við ein­stak­linga með ör­orku.”

Við­skiptaráð leggur einnig til fjórar til­lögur að hag­ræðingu í starfs­manna­haldi ríkisins. Þær eru að vinnutími, veikinda­fjar­vistir, upp­sagnar­vernd og or­lofs­réttur verði færð til jafns við einka­geirann. Til­lögurnar skila 32 ma. kr. hag­ræðingu ár­lega.

Við­skiptaráð leggur síðan fram 12 til­lögur um verk­efni sem ríkið getur lagt niður. Til­lögurnar snúa að því að leggja niður ýmsa styrki, auka at­vinnu­frelsi, draga úr sam­keppnis­rekstri ríkisins og að stofnanir verði lagðar niður. Þetta skilar 24 ma. kr. í hag­ræði ár­lega

Hægt er að lesa til­lögurnar í heild sinni hér.