Skipafloti heims var tæplega 13,7 ára að meðaltali í desember samkvæmt greiningu skipamiðlunarfyrirtækisins Clarksons. Meðalaldurinn hefur ekki verið hærri frá árinu 2009.
Meðalaldur gámaskipa náði 14,3 árum í lok síðasta árs og hefur ekki verið hærri frá upphafi mælinga hjá Clarksons. Þá var meðalaldur olíuskipa um 12,9 ár og hefur ekki verið meiri í rúma tvo áratugi. Greiningin undanskilur smærri skip sem flytja vörur með undir 5 þúsund tonna flutningsgetu.
Í umfjöllun Financial Times segir að greiningin varpi ljósi á að skipaiðnaðurinn sé hikandi við að panta skip sem knúin eru áfram af umhverfisvænni orkugjöfum í ljósi óvissu um framboð á grænni orku.
Eftirspurn eftir eldri olíuskipum aukist mikið eftir innrásina
Á sama tíma hafi skipaeigendur verið að njóta góðs af aukinni eftirspurn eftir notuðum skipum frá rekstraraðilum sem flytja rússneska olíu sem vestræn ríki hafa lagt viðskiptabann á. Mörg af skipum í „skuggaflota“ slíkra rekstraraðila væru að líkindum komin í niðurrif ef ekki væri fyrir þessa flutninga.
Greinandi hjá skipamiðlunarfyrirtækinu Gibson sagði við FT að afar fá olíuskip hafi farið í niðurrif frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst sem varð til þess að vestræn ríki fóru að leggja á takmarkanir á innflutning olíu frá Rússlandi. Í kjölfarið hafi Evrópuþjóðir byrjað að flytja inn meiri olíu frá fjarlægari ríkjum og eigendum olíuskipa er greitt meira fyrir lengri ferðalög.
Markaðsvirði 15 ára gamals Aframax olíuskips, meðalstórrar týpu sem er oft notuð til að flytja rússneska olíu, hefur hækkað um 129% upp í 40 milljónir dala, eða um 5,5 milljarða króna frá innrásinni í Úkraínu í febrúar 2022. Markaðsverð fyrir að selja slík skip til skipaendurvinnslustöðva hefur á sama tímabili hækkað um 40% upp í 9,2 milljónir dala.