Fasteignafélagið Reitir eiga nú í samningaviðræðum við FSRE um þróun 87 herbergja hjúkrunarheimilis við Nauthólsveg 50. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu Reita.
Nauthólsveg 50 er núverandi skrifstofuhúsnæði Icelandair. Flugfélagið vinnur að því að flytja höfuðstöðvar sínar af Nauthólsvegi í Flugvelli í Hafnarfirði.
Fram kemur að frumhönnun um mögulegt hjúkrunarheimili standi yfir og deiliskipulagstillaga sem heimilar breytta starfsemi hússins hafi verið lögð inn til Reykjavíkurborgar.
Reitir og Reykjavíkurborg undirrituðu viljayfirlýsingu fyrr í ár um uppbyggingu lífsgæðakjarna á Loftsleiðasvæðinu en í því felst einnig uppbygging um 120 íbúða, að hluta til þjónustuíbúða, auk þjónustukjarna.
„Miðlæg staðsetning við Borgarlínuás og nálægð við Landspítala er afar hentug fyrir slíkan kjarna. Uppbygging hjúkrunarheimilis fellur vel að stefnu Reita um að vera leiðandi afl í þróun og uppbyggingu samfélagslegra innviða.“
Reitir keyptu hið 6.500 fermetra skrifstofuhúsnæði að Nauthólsveg 50 af Icelandair fyrir 2,3 milljarða króna árið 2020. Reitir hafa á undanförnum árum kynnt hugmyndir að breytingum á Loftleiðareitnum.