Seðlabankinn hefur til skoðunar notkun einhvers konar bindiskyldu eða skattlagningu til að draga úr fjármagnsinnstreymi í gegnum vaxtamunarviðskipti erlendra aðila. Þetta segir Már Guðmundsson seðlabankanstjóri í samtali við VB Sjónvarp.

Í lokaorðum yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að „vaxtaferillinn mun einnig ráðast af því hvort öðrum stjórntækjum verður beitt til þess að halda aftur af eftirspurnarþrýstingi á komandi misserum“. Spurður að því hvers konar stjórntæki þar er nákvæmlega átt við segir Már að meðal þeirra verði einhvers konar hömlur sem settar verða á vaxtamunarviðskipti, annað hvort í gegnum bindiskyldu eða skattlagningu. Hann tjáði sig ekkert um nánari útfærslu eða tímasetningar á slíkum aðgerðum.

Greint var frá því í Viðskiptablaðinu í síðustu viku að erlendir eigendur að skuldabréfaflokkunum RIKB 31 og RIKB 25 hafa frá lok mars til loka júlímánaðar aukið stöðu sína í flokkunum um 68%, úr 11,5 milljörðum í 19,3 milljarða. Þar af juku þeir stöðu sína um 20% í síðasta mánuði, úr 16,1 milljarði í 19,3 milljarða. Spurður að því hvort aukin vaxtamunaviðskipti hafi haft einhver áhrif á vaxtaákvörðunina segir Már að svo sé ekki nema að litlu leyti.

VB Sjónvarp ræddi við Má.

Nánar verður fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu í fyrramálið með því að smella á hlekkinn Tölublöð .