Skráð atvinnuleysi var 3,2% í júlí og dróst saman um 0,1 prósentu frá því í júní þegar það var 3,3%. Skráð atvinnuleysi hefur ekki verið minna frá því í mars 2019. Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi muni ekki breytast mikið í ágúst og verða á bilinu 3,0%-3,4%.

Að meðaltali voru 6.279 atvinnulausir í júlí, en þeim fækkaði að meðaltali um 396 á milli mánaða. Atvinnulausum fækkaði í öllum atvinnugreinum frá lokum maí en mest var hlutfallsleg fækkun atvinnulausra í ferðatengdum atvinnugreinum og upplýsingatækni- og útgáfu eða um 15% fækkun atvinnulausra á milli mánaða.

Alls höfðu 2.387 verið án atvinnu í meira en tólf mánuði í lok júlí og fækkaði um átta frá júní. Til samanburðar var fjöldinn 5.361 í júlílok 2021.

Alls staðar dró úr atvinnuleysi í júlí nema á Vestfjörðum þar sem það breyttist óverulega. Af einstökum landshlutum dró mest hlutfallslega úr atvinnuleysi á Norðurlandi vestra og á Suðurlandi.

Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum í júlí eða 5,5% og minnkaði úr 5,8% í júní. Næst mest var atvinnuleysið 3,5% á höfuðborgarsvæðinu og minnkaði úr 3,7% í júní.

Mynd tekin frá Vinnumálastofnun.
Mynd tekin frá Vinnumálastofnun.