Nasdaq hefur samþykkt skráningu málmleitarfyrirtækisins Amaroq Minerals, sem heldur á rannsóknar- og vinnsluheimildum á Grænlandi, af First North-markaðnum yfir á aðalmarkað Kauphallarinnar.
Fyrsti dagur viðskipta á aðalmarkaði verður 21. september næstkomandi.
„Tilfærsla Amaroq af First North yfir á Aðalmarkað mun styrkja stöðu félagsins, en frá því að félagið var skráð á First North á síðasta ári höfum við notið góðs af miklum áhuga frá íslenska markaðnum. Ég vil benda áhugasömum á að skoða kynningu félagsins þar sem nánar er farið út í ástæður tilfærslunnar. Kynningin er aðgengileg á vefsíðu félagsins,“ sagði Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq, í tilkynningu í síðustu viku.
Hlutabréfaverð Amaroq hefur hækkað um 20,7% á árinu og nemur markaðsvirði félagsins hátt í 25 milljörðum króna sem er það mesta meðal félaga á First North-markaðnum.
Íslenskir fjárfestar sem komast á lista yfir stærstu hluthafa Amaroq Minerals eiga samtals 30% hlut í málmleitarfélaginu. Hvalur og Heiðar Guðjónsson eru meðal stærstu hluthafa.
Samkvæmt heimasíðu Amaroq eru erlendu félögin JLE Property Ltd, First Pecos LLC og Livermore Partners þrír stærstu hluthafar málmleitarfélagsins með samtals 18,9% hlut. Sjóðir í stýringu Akta sjóða fylgja þar á eftir með samtals 5,5% hlut sem er um einn milljarður króna að markaðsvirði.