Mark Dixon, stofnandi og forstjóri IWG, móðurfélags Regus, ferðaðist til Íslands í fyrsta sinn til að vera viðstaddur undirritun leigusamnings Regus á Íslandi á allri þriðju hæðinni í nýja skrifstofuhúsnæðinu á Kirkjusandsreitnum.
IWG er stærsta félag heims á sviði skrifstofusetra og tengdri þjónustu en það er með á fjórða þúsund staði í fleiri en 120 löndum á sínum snærum.
Í viðtali við Viðskiptablaðið sagði Mark að eftirspurnin hafi stóraukist í kjölfar Covid-faraldursins og gerir hann ráð fyrir að byggingum í neti IWG fjölgi um eitt þúsund á yfirstandandi fjárhagsári og að vöxturinn verði enn meiri á því næsta.
„Faraldurinn setti af stað byltingu í vinnustaðamenningu. Við fundum fyrir meðbyr árið 2019 en heilt yfir var lágt hlutfall fyrirtækja farið að huga að blönduðum vinnuháttum (e. hybrid-work).
Í Covid neyddist fólk til að læra á nýjustu tækni, t.d. þegar kemur að fjarfundum, sem hefur ýtt undir breytt viðhorf. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að framleiðni innan fyrirtækja minnkaði nær ekkert þrátt fyrir að fólki hafi verið meinað að mæta á skrifstofuna. Ég held að það verði mikið skrifað um það eftir 10 ár.“
Regus finnur nú fyrir gífurlegri eftirspurn en hvert fyrirtækið á fætur öðru er farið að liðka fyrir fjarvinnu starfsmanna. Mark segir að áður fyrr hafi mikil orka farið í að sannfæra fólk um sýn félagsins á sveigjanlegra vinnuumhverfi en nú séu fyrirtæki farin að átta sig á ávinningi þess. Jafnframt sé möguleiki á fjarvinnu orðinn algengari krafa hjá fólki sem mætir í starfsviðtöl.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Regus í Viðskiptablaði vikunnar. Þar ræðir Mark nánar um breytta vinnuhætti og framtíð skrifstofunnar.