Skuldir heimila drógust saman um 0,8% að raunvirði á fyrri helming ársins miðað við sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans sem birt var í morgun.

Skuldir heimila drógust saman um 0,8% að raunvirði á fyrri helming ársins miðað við sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans sem birt var í morgun.

Þrátt fyrir að skuldirnar hafi dregist saman að raunvirði var nafnvöxtur þeirra um 5,5% og skýrist það af stærstum hluta af verðbótum verðtryggðra lána heimilanna.

Skuldahlutfall íslenskra heimila eru lág bæði í sögulegu og alþjóðlegu samhengi. Hlutfall skulda heimila af vergri landsframleiðslu var 73% um mitt þetta ár. Hlutfall skulda á móti ráðstöfunartekjum lækkaði á umræddu tímabili og mældist 144%.

Hrein útlán til heimila námu 101 milljarður fyrstu sjö mánuði ársins og jafngildir það um 18% raunaukningu. Seðlabankinn bendir þó á umfangið sé undir langtímameðaltali.

Veðrýmið nýtt

Í skýrslunni er bent á að lán til heimila önnur en fasteignalán hafi lækkað markvisst það sem af er ári.

Líkleg skýring á þessu er að heimili sem hafa endurfjármagnað lán sín hafi nýtt tækifærið til að skuldbreyta öðrum lánum. Þetta hefur ekki haft neikvæð áhrif á veðrými heimila enda hefur eignamyndunin aukist samhliða hækkunum á fasteignamarkaði.