Skúli Mogensen og fjölskylda opna sjóböð í Hvammsvík í Hvalfirði um helgina, laugardaginn 16. júlí, fyrir gesti 12 ára og eldri.

Verkefnið hefur átt sér langan aðdraganda en gamla náttúrulaugin í fjöruborðinu í Hvammsvík hefur verið vinsæl á meðal ferðamanna, sjósundsfólks og göngugarpa í tugi ára. Með opnum sjóðbaðanna hefur laugunum fjölgað og eru nú átta talsins með mismunandi hitastigi.

"Við fjölskyldan erum mjög spennt að opna sjóböðin fyrir gesti og leyfa sem flestum að njóta Hvammsvíkur með okkur. Það er fátt betra fyrir líkama og sál en að vera úti í náttúrunni og njóta. Við segjum gjarnan að það sé ekki hægt að keppa við náttúruna og það á svo sannarlega vel við í Hvammsvíkinni. Það eru forréttindi að geta gengið hér upp um fjöll og firði í bakgarði Reykjavíkur og enda svo í heitum sjóböðum og jafnvel stungið sér í kaldan sjóinn. Við höfum verið ótrúlega heppin að vinna með frábæru fagfólki á öllum sviðum að því að gera þennan draum að veruleika og ég hlakka til að taka á móti gestum og bjóða þá velkomna í Hvammsvík Sjóböð“, segir Skúli Mogensen stofnandi Hvammsvíkur Sjóbaða.

Sjóböðin í Hvammsvík
Sjóböðin í Hvammsvík

Hönnun sjóbaðanna tók mið af náttúrunni og sögunni en þjónustuhúsið er byggt á gömlum braggagrunni frá stríðsárunum, einum af mörgum sem leynast í Hvammsvíkinni.

Sjóböðin verða opin daglega frá klukkan 11 til 22 og þurfa gestir að bóka aðgang fyrir fram á heimasíðunni.