Skúli Mogen­sen, stofnandi flug­félagsins WOW air, Liv Bergþórs­dóttir, fyrr­verandi stjórnar­for­maður, Helga Hlín Há­konar­dóttir og Davíð Más­son stjórnar­menn félagsins voru öll sýknuð af kröfum þrota­bús WOW air.

Um er að ræða ellefu dóms­mál í heildina þar sem þrota­búið krafðist riftunar á greiðslum sem áttu sér stað skömmu fyrir gjaldþrot félagsins vorið 2019.

Að mati héraðs­dóms Reykja­víkur tókst þrota­búinu ekki að sanna að stjórn­endur WOW air hefðu verið skaða­bóta­skyldir með því að fremja saknæma hátt­semi í að­draganda gjaldþrotsins en megin­regla skaða­bótaréttar er að tjóni þurfi að vera valdið af ásetningi eða stór­kost­legu gá­leysi.

Þrota­búinu tókst þó að rifta fjölmörgum ráðstöfunum og fær í heildina 750 milljónir króna, eða um 1,3 milljarða króna með vöxtum, sam­kvæmt Vísi.

Flug­véla­leigan, CIT aerospace international, var sýknuð þar sem þrota­búinu tókst ekki að sanna að WOW air hefði verið ógjald­fært þegar flug­félagið greiddi flug­véla­eigunni um 137 milljónir króna í október 2018.

Í átta af ellefu málunum taldi héraðs­dómur að ráð­stafanir WOW air hefðu verið ólög­mætar.

Meðal þeirra mála sem þrota­búið vann var gegn ís­lenska ríkinu sem þarf að greiða þrota­búinu rúm­lega 270 milljónir króna auk vaxta.