Skúli Mogensen, stofnandi flugfélagsins WOW air, Liv Bergþórsdóttir, fyrrverandi stjórnarformaður, Helga Hlín Hákonardóttir og Davíð Másson stjórnarmenn félagsins voru öll sýknuð af kröfum þrotabús WOW air.
Um er að ræða ellefu dómsmál í heildina þar sem þrotabúið krafðist riftunar á greiðslum sem áttu sér stað skömmu fyrir gjaldþrot félagsins vorið 2019.
Að mati héraðsdóms Reykjavíkur tókst þrotabúinu ekki að sanna að stjórnendur WOW air hefðu verið skaðabótaskyldir með því að fremja saknæma háttsemi í aðdraganda gjaldþrotsins en meginregla skaðabótaréttar er að tjóni þurfi að vera valdið af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.
Þrotabúinu tókst þó að rifta fjölmörgum ráðstöfunum og fær í heildina 750 milljónir króna, eða um 1,3 milljarða króna með vöxtum, samkvæmt Vísi.
Flugvélaleigan, CIT aerospace international, var sýknuð þar sem þrotabúinu tókst ekki að sanna að WOW air hefði verið ógjaldfært þegar flugfélagið greiddi flugvélaeigunni um 137 milljónir króna í október 2018.
Í átta af ellefu málunum taldi héraðsdómur að ráðstafanir WOW air hefðu verið ólögmætar.
Meðal þeirra mála sem þrotabúið vann var gegn íslenska ríkinu sem þarf að greiða þrotabúinu rúmlega 270 milljónir króna auk vaxta.