Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, sendi í dag frá sér formlegt áminningarbréf til Íslands vegna skerðinga á atvinnuleysisbótum vegna tímabundinnar dvalar bótaþega í öðru EES-ríki. Áminningarbréfið má finna hér.
ESA lýsir því að til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum á Íslandi skal viðkomandi einstaklingur vera búsettur og staddur á landinu. Ef bótaþegi ferðast til annarra EES-ríkja til skemmri tíma, til dæmis í þeim tilgangi að heimsækja fjölskyldu eða sækja heilbrigðisþjónustu, eru atvinnuleysisbætur ekki greiddar þá daga sem dvalið er erlendis.
Auk þess eiga bótaþegar fimm daga veikindarétt á hverju tólf mánaða tímabili svo lengi sem þeir dvelja á Íslandi.
„ESA hefur komist að þeirri niðurstöðu að með því að skerða atvinnuleysisbætur vegna dvalar í öðru EES-ríki hafi Ísland ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum er varðar réttinn til að sækja heilbrigðisþjónustu í öðrum aðildarríkjum samningsins,“ segir í tilkynningu ESA.
„Þar að auki telur ESA að skerðing atvinnuleysisbóta á meðan á dvöl erlendis stendur feli í sér óréttmæta skerðingu á frelsi EES-borgara til að sækja þjónustu í öðrum EES-ríkjum.“
Eftirlitsstofnunin tekur fram að formlegt áminningarbréf sé fyrsta skrefið í samningsbrotaferli gegn EES EFTA-ríki. Ísland hafi nú tvo mánuði til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ESA ákveður hvort fara skuli með málið lengra.