Slitum á fiskútflutningsfyrirtækinu Niceland Seafood Holding ehf. lauk á dögunum. Lokareikningar félagsins sem og frumvarp til úthlutunargerðar í félaginu voru samþykkt á hluthafafundi félagsins hinn 30. janúar síðastliðin, samkvæmt auglýsingu sem birtist í Lögbirtingablaðinu á dögunum.
Niceland Seafood var stofnað af Oliver Luckett og Heiðu Kristínu Helgadóttur árið 2017. Hugmyndin var að gera út á ímynd Íslands með því að selja rekjanlegan íslenskan fisk beint til neytenda erlendis.
„Fyrirtækið byggir á því að hagnýta jákvæða ímynd Íslands,“ sagði Luckett í viðtali við Viðskiptablaðið árið 2018.
Fiskifréttir greindu frá því haustið 2023 að Niceland Seafood væri hætt starfsemi og að rekstur þess í Bandaríkjunum hafi verið seldur. Heiða Kristín sagði ýmsar ástæður fyrir að reksturinn hafi gengið upp en Covid-faraldurinn hafði m.a. víðtæk áhrif. Félagið var komið á gott skrið fyrir faraldurinn að hennar sögn.
Greiddu 23 milljónir upp í kröfu Eyris
Meðal helstu fjárfesta í fyrirtækinu var Eyrir Invest. Eignarhlutur Eyris Ventures, dótturfélags Eyris Invest, í Niceland Seafood Holding, nam 74,9% í árslok 2023 en aðrir hluthafar voru Efni ehf. með 16,0% hlut og BHV ehf. með 9,2% hlut.
Eignir samstæðunnar voru bókfærðar á 49 milljónir í árslok 2023. Eigið fé var neikvætt um 364 milljónir og skuldir námu 413 milljónum, þar af var 413 milljóna langtímalán við Eyri Ventures.
Skilanefnd félagsins tók til starfa í október síðastliðnum. Í auglýsingu skilanefndarinnar kemur fram að slitum félagsins sé nú lokið og kom ekki til úthlutunar til hluthafa.
Ein krafa barst skilanefndinni frá Eyri Ventures. Skilanefnd samþykkti að greiða tæplega 23,4 milljónir króna upp í kröfuna, en með vísan til kröfulýsingar voru eftirstöðvar kröfu Eyrir Ventures ehf. á Niceland Seafood Holding ehf. felldar niður.