Bandaríska smásölukeðjan Big Lots hefur sótt um gjaldþrotaskipti og um leið samþykkt að selja reksturinn til félags í eigu fjárfestingarfélagsins Nexus Capital Management.
Big Lots hefur átt undir högg að sækja vegna samdráttar í einkaneyslu á verðbólgutímum sem tóku við eftir gósentíð í heimsfaraldrinum.
Að því gefnu að ekki berist hærra tilboð en frá Nexus er reiknað með að kaupin verði frágengin á lokaársfjórðungi yfirstandandi árs.
Viðskipti með hlutabréf smásölukeðjunnar, sem er skráð á markað vestanhafs, voru stöðvuð í kjölfar tilkynningar um gjaldþrotaskiptin.
Big Lots hefur skilað tapi á nær hverjum ársfjórðungi undanfarin rúmlega tvö ár og hefur reynt að bregðast við þeirri þróun með niðurskurði. Til marks um það voru Big Lots búðirnar um 1.300 talsins í maí sl., samanborið við 1.425 í byrjun árs 2023.