Undir nýjum samstarfssamningi munu gagnaver atNorth tengjast hugbúnaði Snerpa Power til að greina orkunotkun og sjálfvirknivæða ferla tengdum áætlanagerð raforkunotkunar með það að markmiði að auka nákvæmni við orkukaup og auka hagkvæmni.
Samstarfið felur einnig í sér að atNorth geti með hugbúnaði Snerpa Power tengst markaði Landsnets til að jafna frávik í rauntíma og aukið þannig nýtingu þeirrar raforku sem þegar er til staðar í íslenska raforkukerfinu.
Tilraunaverkefnið felur í sér að nýta lifandi gagnastrauma og tengja þá við hugbúnað Snerpa Power og virkji þar með atNorth sem notanda á raforkumarkaði. Í tilkynningu segir að með þessu geti atNorth dregið úr orkunotkun og bætt auðlindanýtingu á Íslandi.
Benedikt Gröndal, framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs atNorth:
„atNorth byggir lausnir sínar á raforku sem framleidd er á sjálfbærann hátt og höfum við frá stofnun haft framúrskarandi orkunýtingu að leiðarljósi til þess að nýta raforku á ábyrgan og hagkvæman hátt. Orkuhagkvæmni og uppruni raforkunnar eru oft fyrirferðarmikil í okkar samtali við viðskiptavini. Við bindum vonir við að með þessu samstarfi við frumkvöðlana hjá Snerpa Power getum við aukið enn frekar orkuhagkvæmni okkar gagnavera og þar með stutt við mikilvæga nýsköpun sem miðar að því að nýta betur þá orku sem framleidd er hér á landi sem er samfélagslega mikilvægt verkefni.”
Íris Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Snerpa Power:
„Það er virkilega hvetjandi að vinna með stórnotendum á raforkumarkaði sem deila okkar markmiðum um að bæta auðlindanýtingu og hraða orkuskiptum. Við hlökkum til þess að vinna með atNorth að tilraunaverkefninu og trúum því að þetta sé aðeins byrjunin á lengri vegferð og farsælu samstarfi.”