Skyndibitakeðjan McDonald‘s segist upplifa töluvert högg meðan viðskiptavinir í Miðausturlöndunum og annars staðar sniðganga staðinn fyrir álitinn stuðning við Ísrael.
Chris Kempczinski, forstjóri fyrirtækisins, segir í færslu á LinkedIn að hann kenni falsfréttum og röngum upplýsingum um en Starbucks hefur einnig greint frá svipuðum áhrifum.
„Nokkrir veitingastaðir í Miðausturlöndum og annars staðar eru að upplifa mikil áhrif vegna stríðsins og tilheyrandi rangra upplýsinga sem hafa neikvæð áhrif á vörumerki eins og McDonald‘s. Í hverju landi þar sem við erum með starfsemi, þar á meðal í múslímalöndum, er McDonald‘s stoltur fulltrúi staðbundinna eigenda. Þetta er niðurdrepandi og illa grundað,“ skrifar Kempczinski.
McDonald‘s reiðir sig á þúsundir sjálfstæðra fyrirtækja til að reka sína 40.000 veitingastaði um allan heim en 5% þeirra eru staðsettir í Miðausturlöndunum.
Frá því að Hamas réðst á Ísrael þann 7. október sl. hefur McDonald‘s ekki viljað blanda sér í átökin en vörumerkið hefur engu að síður orðið fyrir áhrifum. Næstu vikur eftir árásina sagði McDonald‘s í Ísrael að það hefði gefið meðlimum ísraelska hersins þúsundir ókeypis máltíða.
Ákvörðunin varð til þess að margir í múslímalöndum eins og Kúveit, Malasíu og Pakistan fóru að sniðganga McDonald‘s.