Seðlabanki Bandaríkjanna ákvað í gær að halda stýrivöxtum óbreyttum í bili, þrátt fyrir vaxandi þrýsting frá Hvíta húsinu um vaxtalækkun.
Það vakti þó sérstaka athygli að tveir stjórnarmenn bankans sem koma að vaxtaákvörðun, Michelle Bowman og Christopher Waller, greiddu atkvæði gegn meirihlutanum og vildu lækka vexti.
Samkvæmt Financial Times var þetta í fyrsta sinn frá árinu 1993 þar sem tveir stjórnarmenn í stjórn bankans greiddu atkvæði gegn stjórn bankans.
Samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs er talið að ákvörðun Bowman og Waller endurspegli aukinn ágreining innan stjórnarinnar um peningastefnuna en einnig verður að hafa í huga að Trump mun skipa næsta seðlabankastjóra þegar Powell lætur af embætti.
Stýrivextir í Bandaríkjunum haldast engu að síður í 4,25 til 4,5 prósentum eftir ákvörðun gærdagsins.
Jerome Powell seðlabankastjóri Bandaríkjanna sagði eftir fundinn að ekki væru sterk rök fyrir því að lækka vexti strax:
„Efnahagslífið stendur sig ekki eins og það sé í viðjum of þéttrar peningastefnu,“ sagði Powell en viðurkenndi þó að áhætta væri til staðar: „Við sjáum alveg möguleika á að vinnumarkaðurinn veikist á næstu mánuðum.“
Samkvæmt Financial Times var einnig ljóst á ummælum Powell að hann vildi draga úr væntingum markaðsaðila um vaxtalækkun í september.
Hreyfingar á mörkuðum sýndu greinilega að skilaboðin náðu til fjárfesta samhliða því að gengi Bandaríkjadals styrktist. Framvirk leiðsögn Powell hefur líklegast farið illa í Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sem sagði áður en ákvörðun bankans var kynnt að hann hefði heyrt af því að vextir yrðu óbreyttir en lækkaðir í september.
„Ég heyri að þeir ætli að lækka í september, ekki í dag. Af hverju veit enginn,“ sagði Trump.
Trump hefur jafnframt hert tollastefnu sína og boðað frekari gjöld á innfluttar vörur um mánaðamótin en samkvæmt FT er líklegt að það muni auka verðbólguþrýsting sem flækir starf seðlabankans enn frekar.