Seðla­banki Bandaríkjanna ákvað í gær að halda stýri­vöxtum óbreyttum í bili, þrátt fyrir vaxandi þrýsting frá Hvíta húsinu um vaxtalækkun.

Það vakti þó sér­staka at­hygli að tveir stjórnar­menn bankans sem koma að vaxtaákvörðun, Michelle Bowman og Christop­her Waller, greiddu at­kvæði gegn meiri­hlutanum og vildu lækka vexti.

Sam­kvæmt Financial Times var þetta í fyrsta sinn frá árinu 1993 þar sem tveir stjórnar­menn í stjórn bankans greiddu at­kvæði gegn stjórn bankans.

Sam­kvæmt fjölmiðlum vestan­hafs er talið að ákvörðun Bowman og Waller endur­spegli aukinn ágreining innan stjórnarinnar um peninga­stefnuna en einnig verður að hafa í huga að Trump mun skipa næsta seðla­banka­stjóra þegar Powell lætur af em­bætti.

Stýri­vextir í Bandaríkjunum haldast engu að síður í 4,25 til 4,5 pró­sentum eftir ákvörðun gær­dagsins.

Jerome Powell seðla­banka­stjóri Bandaríkjanna sagði eftir fundinn að ekki væru sterk rök fyrir því að lækka vexti strax:

„Efna­hags­lífið stendur sig ekki eins og það sé í viðjum of þéttrar peninga­stefnu,“ sagði Powell en viður­kenndi þó að áhætta væri til staðar: „Við sjáum alveg mögu­leika á að vinnu­markaðurinn veikist á næstu mánuðum.“

Sam­kvæmt Financial Times var einnig ljóst á um­mælum Powell að hann vildi draga úr væntingum markaðsaðila um vaxtalækkun í septem­ber.

Hreyfingar á mörkuðum sýndu greini­lega að skila­boðin náðu til fjár­festa sam­hliða því að gengi Bandaríkja­dals styrktist. Fram­virk leiðsögn Powell hefur lík­legast farið illa í Donald Trump, for­seta Bandaríkjanna, sem sagði áður en ákvörðun bankans var kynnt að hann hefði heyrt af því að vextir yrðu óbreyttir en lækkaðir í septem­ber.

„Ég heyri að þeir ætli að lækka í septem­ber, ekki í dag. Af hverju veit enginn,“ sagði Trump.

Trump hefur jafn­framt hert tolla­stefnu sína og boðað frekari gjöld á inn­fluttar vörur um mánaðamótin en sam­kvæmt FT er lík­legt að það muni auka verðbólguþrýsting sem flækir starf seðla­bankans enn frekar.