Gríðarlegar sveiflur voru á mörkuðum á heimsvísu á mánudag en miklar lækkanir höfðu átt sér stað frá miðvikudeginum 2. apríl, eða hinum svokallaða „frelsisdag“ þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti umfangsmikla tolla gegn helstu viðskiptalöndum Bandaríkjanna og lágmarkstolla um 10% á allar innfluttar vörur. Síðarnefndi tollurinn tók gildi laugardaginn 5. apríl en fyrrnefndu gagntollarnir taka gildi í dag, 9. apríl.
Við opnun markaða á mánudag lækkuðu allar helstu vísitölur víða um heim. S&P 500 hlutabréfavísitalan í Bandaríkjunum lækkaði um meira en 4% skömmu eftir opnun markaða og Stoxx 600 vísitalan í Evrópu lækkaði um meira en 5%. Í Asíu lækkaði Hang Seng vísitalan, sem nær til margra félaga á meginlandi Kína, um rúm 9% strax um morgunin og endaði á að lækka um 13,2%, sem er mesta lækkunin á einum degi í tæpa þrjá áratugi.
Sveiflurnar á mörkuðum yfir daginn jöfnuðust síðan út vestanhafs og við lokun markaða voru breytingar á S&P 500 og Nasdaq Composite í kringum núllið. Stoxx Europe 600 vísitalan lækkaði aftur á móti um 4%, MSCI vísitalan um 2% og Nikkei 225 vísitalan í Japan um 8%.
Aftur á móti höfðu allar helstu vísitölur lækkað ef horft er aftur til 2. apríl, eða um 11-13% ef miðað er við dagslokagengi á mánudag. Frá embættistöku Trumps þann 20. janúar er lækkunin enn meiri.
Í Bandaríkjunum hefur S&P 500 vísitalan lækkað um 16% og Nasdaq Composite-vísitalan hefur lækkað um 21%. MSCI-vísitalan hefur lækkað um 15% en Stoxx 600 vísitalan í Evrópu og FTSE 100 vísitalan í London hafa lækkað um 10%. Hang Seng vísitalan hefur aftur á móti lítið sem ekkert breyst en Nikkei 225 vísitalan í Japan hefur lækkað um 20%.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.