Breski tóbaksframleiðandinn Imperial Brands hefur fært upp afkomuspá sína fyrir næsta ár er félagið sér fram á aukna eftirspurn eftir annars konar nikótínvörum líkt og rafrettum.
Imperial, sem er þekktast fyrir að framleiða Winston-sígarettur, birti ársuppgjör fyrir fjárhagsárið 2024 í gær en hagnaður félagsins nam 2,6 milljörðum punda á fjárhagsárinu en greinendur höfðu spáð um 2,2 milljarða punda hagnaði.
Heildartekjur Imperial drógust saman um 0,2% og námu 32,4 milljörðum punda en tekjur af annars konar níkótínvörum líkt og rafrettum jukust um 26% milli ára.
Tekjur af slíkum vörum eru nú um 8% af öllum tekjum samstæðunnar samkvæmt The Wall Street Journal
Stefan Bomhard, forstjóri félagsins, segir að geta félagsins til að framleiða rafrettur og koma þeim á markað á skömmum tíma hafi haft jákvæð áhrif á afkomuna í ár.
Þá hefur félagið einnig ákveðið að byrja framleiða nikótínpúða.
Eftirspurn í vörum félagsins samkvæmt uppgjörinu jókst í Bandaríkjunum, Spáni og Ástralíu á meðan eftirspurn í Bretlandi dróst saman.
Richard Hunter, yfirmaður markaðsviðskipta hjá Imperial, segir að þrátt fyrir breyttan lífstíl nikótínnotenda og íþyngjandi regluverk á tóbaksframleiðslu hafi félaginu tekist að „spila ágætlega úr þeim spilum sem það hefur á hendi.“