Landsbankinn hefur auglýst til sölu 35% eignarhlut sinn í hótelkeðjunni Keahótelum. Tilboðsfrestur er til kl. 16 á miðvikudaginn 20. desember næstkomandi, að því er kemur fram í tilkynningu á vef bankans.

Landsbankinn hefur auglýst til sölu 35% eignarhlut sinn í hótelkeðjunni Keahótelum. Tilboðsfrestur er til kl. 16 á miðvikudaginn 20. desember næstkomandi, að því er kemur fram í tilkynningu á vef bankans.

Landsbankinn, sem er lánveitandi Keahótela, eignaðist 35% hlut í hótelkeðjunni í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar félagsins árið 2020. Landsbankinn fer með eignarhlutinn í Keahótelum í gegnum félagið Hömlur ehf.

Keahótel eru fjórða stærsta hótelkeðja Íslands með tíu hótel í Reykjavík, Akureyri, Grímsnesi, Vík og Siglufirði. Hótel Keahótela eru samtals með 940 herbergi. Keahótel leigir öll tíu hótelin á langtímaleigusamningum.

Í sölukynningu bankans segir að merki séu um að nýtingarhlutfall á hótelum landsins sé að aukast, sérstaklega á vetrartímanum. Jafnframt séu túristar að jafnaði að dvelja lengur en áður.

Keahótel eru fjórða stærsta hótelkeðja landsins með tíu hótel og 940 herbergi.

Félagið Prime Hotels ehf. á 65% hlut í Keahótelum á móti Landsbankanum. Prime Hotels er í helmingseigu Pt. Capital, fjárfestingarsjóðs frá Alaska. Þá eiga félögin JL Properties, sem er í eigu Jonathan B. Rubini, ríkasta manns Alaska, og Erkihvönn ehf., sem er í eigu Fannars Ólafssonar, Kristjáns M Grétarssonar, Þórðar Kolbeinssonar og Andra Gunnarssonar, hvor um sig 25% hlut í Prime Hotels.

Hótelkeðjan hagnaðist um 260,7 milljónir króna árið 2022 samanborið við 1,9 milljóna hagnað árið áður. Eignir hótelkeðjunnar voru bókfærðar á tæplega 1,9 milljarða króna í árslok 2022 og eigið fé nam 134 milljónir króna.

Keahótel áætlar að velta félagsins í kringum 8.252 milljónir króna sem yrði met hjá hótelfélaginu. Þá gerir félagið ráð fyrir rekstrarhagnaði fyrir afskriftir upp á 749 milljónir króna.