Stjórnendur Kaupþings hafa til skoðunar að setja félagið í slitameðferð á næstu tólf mánuðum takist að leysa ákveðin mál í rekstrinum, að því er fram kemur í ársreikningi félagsins fyrir 2020.
Kaupþing hafi greitt ríflega 500 milljarða króna til eigenda breytanlegra skuldabréfa félagsins sem samsvarar 98% af nafnvirði bréfanna. Eignir Kaupþings í árslok 2020 námu 27 milljörðum króna, að mestu lausafé.
Á síðasta ári náði Kaupþing sáttum við skiptastjóra þrotabús Kevins Stanford og bankans Banque Havilland í Lúxemborg sem batt enda á þrjú dómsmál milli þeirra. Kaupþing fékk greiddar um 2,5 milljarða króna vegna málsins auk 24% hlutar í tískuvörumerkinu Mullberry sem það seldi Fraser Group fyrir um 4 milljarða.
Þá leystist úr áralöngu dómsmáli við Morgan Stanley, en félagið seldi sínar síðustu fasteignir í Frakklandi sem og fasteignafélagið Akur í Tékklandi. Kaupþing fékk auk þess um 3,5 milljarða úr þrotabúum félaga innan fatavörusamstæðu Oasis og Warehouse og Aurura sem lýst voru gjaldþrota í fyrra. Kaupþing ehf. varð til á grunni slitabús hins fallna banka um að selja eignir og greiða kröfuhöfum söluandvirðið. Stærsti hluthafinn er vogunarsjóðurinn Taconic Capital.