Hlutafé í íslenska sjávarlíftæknifyrirtækinu Unbroken ehf. hefur verið aukið um hálfan milljarð króna en samkvæmt tilkynningu frá félaginu verður féð nýtt til að efla alþjóðlega markaðssetningu á fæðubótaefni Unbroken.
Virði félagsins í viðskiptunum er 7,5 milljarðar króna og horfir það til skráningar innan fárra ára.
Steinar Kristjánsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda Unbroken, segir fjármögnunina mikilvægan áfanga í að efla fyrirtækið á heimsvísu.
„Við horfum til þess að styrkja núverandi stöðu okkar í Bandaríkjunum, Evrópu, Miðausturlöndum og fyrir markaðsátak í Asíu,“ segir Steinar.„Unbroken fæðubótarefnið hefur verið selt til yfir 40 landa í erlendum vefverslunum.“
Unbroken er framleitt í eigin verksmiðju félagsins í Noregi og er Útgerðarfélag Reykjavíkur stærsti eigandinn.
Runólfur V. Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR, segir í tilkynningu að markmiðið að hlúa að nýsköpun og auka arðsemi og ávinning af sjávarfangi.
„Fjárfestingin hefur gefið ÚR tækifæri til að víkka út starfsemi sína. Félagið hefur öðlast nýja reynslu og þekkingu á sviði líftækni sem hjálpar okkur að hámarka virði afurða okkar.“
Fyrirtækið Unbroken var stofnað árið 2018 og hefur veltan að jafnaði tvöfaldast milli ára. Unbroken fæðubótarefnið byggir á áralöngum rannsóknum og þróunarvinnu.
Unbroken er vottuð sem örugg vara (GRAS) hjá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) og þá er reglum Alþjóðalyfjaeftirlitsnefndar Ólympíunefndarinnar (WADA) fylgt við framleiðslu hennar.
Steinar segir fjölda íþróttamanna á öllum getustigum víða um heim nýta sér Unbroken enda sé um að ræða eina hröðustu vöðvanæringu sem völ er á. Unbroken var fyrst þróað fyrir sjúklinga sem glíma við meltingarfæravandamál.
„Við erum með góða afkastagetu í eigin verksmiðju og erum að vinna að spennandi samstarfi víða um heim sem tengist lausnum fyrir sjúklinga, heilbrigðri öldrun, íþróttum og almennri vellíðan,“ segir Steinar.
„Við horfum til velgengni annarra frumkvöðla sem vinna með sjávarlíftækni í lækningaskyni. Það hefur aukið skilning og trú á virkni vara sem okkar en þá virkni þekkjum við vel.“
Samkvæmt síðasta ársreikningi á Guðmundur Kristjánsson í Brimi á tæplega 40% hlut í Unbroken í gegnum nokkur félög. Þórður Hermann Kolbeinsson og Jón Rúnar Halldórsson eiga 20% hlut hvor og Steinar Trausti Kristjánsson og Danielle Pamela Neben eiga 10% hlut hvor.
Síðan Unbroken fór á markað hefur veltan tvöfaldast á hverju ári og námu tekjur fyrirtækisins um 120 milljónum síðastliðið ár. Fyrirtækið selur þá vörur sínar í stórmörkuðum, apótekum og útivistarbúðum.