Hluta­fé í ís­lenska sjávar­líf­tækni­fyrir­tækinu Un­bro­ken ehf. hefur verið aukið um hálfan milljarð króna en sam­kvæmt til­kynningu frá fé­laginu verður féð nýtt til að efla al­þjóð­lega markaðs­setningu á fæðu­bóta­efni Un­bro­ken.

Virði fé­lagsins í við­skiptunum er 7,5 milljarðar króna og horfir það til skráningar innan fárra ára.

Steinar Kristjáns­son, fram­kvæmda­stjóri og einn eig­enda Un­bro­ken, segir fjár­mögnunina mikil­vægan á­fanga í að efla fyrir­tækið á heims­vísu.

„Við horfum til þess að styrkja nú­verandi stöðu okkar í Banda­ríkjunum, Evrópu, Mið­austur­löndum og fyrir markaðs­á­tak í Asíu,“ segir Steinar.„Un­bro­ken fæðu­bótar­efnið hefur verið selt til yfir 40 landa í er­lendum vef­verslunum.“

Un­bro­ken er fram­leitt í eigin verk­smiðju fé­lagsins í Noregi og er Út­gerðar­fé­lag Reykja­víkur stærsti eig­andinn.

Runólfur V. Guð­munds­son, fram­kvæmda­stjóri ÚR, segir í til­kynningu að mark­miðið að hlúa að ný­sköpun og auka arð­semi og á­vinning af sjávar­fangi.

„Fjár­festingin hefur gefið ÚR tæki­færi til að víkka út starf­semi sína. Fé­lagið hefur öðlast nýja reynslu og þekkingu á sviði líf­tækni sem hjálpar okkur að há­marka virði af­urða okkar.“

Fyrir­tækið Un­bro­ken var stofnað árið 2018 og hefur veltan að jafnaði tvö­faldast milli ára. Un­bro­ken fæðu­bótar­efnið byggir á ára­löngum rann­sóknum og þróunar­vinnu.

Un­bro­ken er vottuð sem örugg vara (GRAS) hjá Mat­væla- og lyfja­eftir­liti Banda­ríkjanna (FDA) og þá er reglum Al­þjóða­lyfja­eftir­lits­nefndar Ólympíu­nefndarinnar (WADA) fylgt við fram­leiðslu hennar.

Steinar segir fjölda í­þrótta­manna á öllum getu­stigum víða um heim nýta sér Un­bro­ken enda sé um að ræða eina hröðustu vöðva­næringu sem völ er á. Un­bro­ken var fyrst þróað fyrir sjúk­linga sem glíma við meltingar­færa­vanda­mál.

„Við erum með góða af­kasta­getu í eigin verk­smiðju og erum að vinna að spennandi sam­starfi víða um heim sem tengist lausnum fyrir sjúk­linga, heil­brigðri öldrun, í­þróttum og al­mennri vel­líðan,“ segir Steinar.

„Við horfum til vel­gengni annarra frum­kvöðla sem vinna með sjávar­líf­tækni í lækninga­skyni. Það hefur aukið skilning og trú á virkni vara sem okkar en þá virkni þekkjum við vel.“

Samkvæmt síðasta ársreikningi á Guðmundur Kristjánsson í Brimi á tæplega 40% hlut í Unbroken í gegnum nokkur félög. Þórður Hermann Kolbeinsson og Jón Rúnar Halldórsson eiga 20% hlut hvor og Steinar Trausti Kristjánsson og Danielle Pamela Neben eiga 10% hlut hvor.

Síðan Unbroken fór á markað hefur veltan tvöfaldast á hverju ári og námu tekjur fyrirtækisins um 120 milljónum síðastliðið ár. Fyrirtækið selur þá vörur sínar í stórmörkuðum, apótekum og útivistarbúðum.