Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings staðfesti í dag lánshæfismat Landsbankans en samkvæmt Kauphallartilkynningu frá bankanum breytti S&P horfum úr stöðugum í jákvæðar.
Lánshæfismat bankans er því BBB+/A-2 með jákvæðum horfum.
Í tilkynningu S&P til bankans er vísað til þess að jákvæðar horfur endurspegli mögulega hækkun lánshæfismats vegna aukins viðnámsþróttar (e. loss-absorbing capacity) auki bankinn útgáfu skulda sem hafa aukna getu til að taka á sig tap og slíkar skuldir nái lágmarksviðmiði S&P sem nemur 4% af áhættuvegnum eignum samkvæmt aðferðafræði S&P.
Í rökstuðningi sínum bendir matsfyrirtækið á að Landsbankinn var fyrstur íslenskra banka til að gefa út víkjandi forgangsskuldabréf (e. senior non-preferred bond) og hafi þar með sýnt fram á traust markaðsaðgengi og áhuga fjárfesta á slíkri útgáfu.