Greining Íslandsbanka spáir því að hagvöxtur verði 2,8% á þessu ári og á bilinu 2,7% til 3,0% fram til ársins 2014. Ingólfur Bender, forstöðumaður deildarinnar, kynnir nú nýja Þjóðhagsspá bankans.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Grundvöllur hagspárinnar byggir á því að hagvöxtur verði drifinn áfram á breiðum grundvelli, vexti í einkaneyslu, fjárfestingum og útflutningi.

„Eignaverð hefur verið að hækka, aðgangur að lánsfé að aukast og staða heimilanna að batna,“ sagði Ingólfur og bætti við að samtímis því sé að draga úr atvinnuleysi og laun að hækka talsvert mikið. Greiningin spáir því að atvinnuleysi verði 6% í ár en 5% í lok spátímabilsins.

„Við verðum ekki komin niður í það atvinnuleysi sem við sáum fyrir hrun. Það var óeðlilegt,“ sagði Ingólfur og rifjaði upp að það dragi úr atvinnuleysi hér á sama tíma og það eykst í öðrum löndum.

Hann benti á að óvissuþættirnir séu afnám gjaldeyrishafta, staða erlendra hagkerfa, tafir á stóriðjuframkævmdum og umfangsmiklum skuldum heimila og fyrirtækja.