Samkvæmt peningamálum Seðlabanka Íslands gerir bankinn ráð fyrir að það hægi áfram á efnahagsumsvifum á næsta ári og að slaki myndist í þjóðarbúskapnum.
„Verðbólga verður komin í 3,2% undir lok ársins sem er heldur minna en spáð var í ágúst sem endurspeglar bjartsýnni horfur um gengi krónunnar og minni innfluttan verðbólguþrýsting en þá var spáð,“ segir í Peningamálum Seðlabankans.
Verðbólga reyndist 0,4 prósentum minni á þriðja ársfjórðungi en bankinn spáði í ágúst.
Að mati bankans má rekja frávikið til áhrifa einskiptisaðgerða stjórnvalda sem voru meiri en gert var ráð fyrir auk þess sem almennur verðbólguþrýstingur virðist hafa verið heldur minni.
„Spáð er að verðbólga verði 4,8% á fjórða ársfjórðungi sem er 1 prósentu minna en búist var við í ágúst. Horfur eru á að verðbólga minnki áfram og verði 4,1% á fyrsta fjórðungi næsta árs. Verðbólguhorfur fyrir næstu fjórðunga hafa því batnað. Nokkur óvissa er þó um nærhorfurnar og önnur spálíkön bankans benda til þess að verðbólga gæti orðið meiri en grunnspáin gerir ráð fyrir,“ segir í Peningamálum.
Í Peningamálum er einnig tekið fram að verðbólguálag til lengri tíma hefur jafnframt lækkað lítillega undanfarið og var álagið til tíu ára 3,6% um miðjan nóvember.
Þar sem verðbólguálagið til skamms tíma lækkaði skarpt en álagið til tíu ára breyttist lítið hækkaði fimm ára álagið eftir fimm ár nokkuð á haustmánuðum.
Að mati SÍ er ólíklegt að þetta endurspegli hækkun verðbólguvæntinga til lengri tíma heldur frekar áhrif vegna stöðutöku fjárfesta á styttri enda skuldabréfamarkaðarins.
„Í kjölfar fyrrgreindrar tilkynningar Hagstofunnar hefur fimm ára álagið eftir fimm ár lækkað á ný og var 4,1% um miðjan nóvember. Þá var hins vegar ákveðið að alhliða kílómetragjald yrði ekki innleitt í stað olíu- og bensíngjalda um áramótin.