Greiningar­deild Lands­bankans hefur birt verðbólgu­spá sína fyrir nóvember­mánuð en sam­kvæmt spánni lækkar vísi­tala neyslu­verðs um 0,13% á milli mánaða í nóvember og hjaðnar þannig ár­s­verðbólga úr 5,1% í 4,5%.

Flug­far­gjöld til út­landa og reiknuð húsa­leiga koma til lækkunar að þessu sinni, en húsnæði án reiknaðrar húsa­leigu til hækkunar.

„Flestir aðrir undir­liðir munu hafa lítil áhrif. Spá okkar núna er 0,07 pró­sentu­stigum hærri en síðasta spá sem við birtum daginn sem Hag­stofan birti október­mælinguna. Spá okkar um raf­orku­verð til al­mennings hækkar og eins spá okkar um undir­liðinn „hótel og veitingastaðir“. Við lækkum spá okkar um reiknaða húsa­leigu,“ segir í Hag­s­já Lands­bankans.

Greiningar­deild bankans á von á áfram­haldandi hjöðnun næstu mánuði og að ár­s­verðbólga verði komin niður í 3,5% í febrúar á næsta ári.

Samkvæmt skammtímaspá Landsbankans mun vísitala neysluverðs hækka um 0,21% í desember, lækka um 0,41% í janúar á næsta ári og hækka aftur um 0,74% í febrúar.

Gangi spáin eftir mælist verðbólga 4,3% í desember, 4,1% í janúar og 3,5% í febrúar.

Lands­bankinn gerir ráð fyrir að flug­far­gjöld til út­landa lækki um 13,3% á milli mánaða (-0,26% áhrif).

Þá lækkar verð á bensíni og dísilolíu um 1,2% á milli mánaða (0,04% áhrif) sam­kvæmt verðkönnun bankans.

Þá spáir bankinn því að reiknuð húsaleiga lækki um 0,1% á milli mánaða (-0,02% áhrif).

Helsta óvissan við langtímaspá bankans eru áhrif kilómetragjaldsins og hvort það gjald verði að lögum.

Spá Landsbankans um nóvembermælingu VNV

Undirliður Vægi í VNV Breyting (spá) Áhrif (spá)
Matur og drykkjarvara 15,0% 0,20% 0,03%
Áfengi og tóbak 2,4% -0,11% 0,00%
Föt og skór 3,8% 0,35% 0,01%
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu 9,8% 0,80% 0,08%
Reiknuð húsaleiga 19,8% -0,10% -0,02%
Húsgögn og heimilisbúnaður 5,6% 0,43% 0,02%
Heilsa 4,0% 0,23% 0,01%
Ferðir og flutningar (annað) 3,8% 0,02% 0,00%
- Kaup ökutækja 6,6% -0,10% -0,01%
- Bensín og díselolía 3,2% -1,20% -0,04%
- Flugfargjöld til útlanda 1,7% -13,30% -0,06%
Póstur og sími 1,6% -0,10% -0,00%
Tómstundir og menning 9,9% 0,04% 0,00%
Menntun 0,9% -0,04% 0,00%
Hótel og veitingastaðir 5,2% 0,50% 0,03%
Aðrar vörur og þjónusta 6,6% 0,37% 0,02%
Alls 100,0%   -0,13%