Hag­stofa Ís­lands spáir því að verðbólga muni hjaðna áfram á næstu árum og verði að meðaltali 2,7% en að hún nái verðbólgu­mark­miði Seðla­banka Ís­lands árið 2027.

Þetta kemur fram í ný­birtri þjóðhags­spá Hag­stofunnar en þar segir að húsnæði hefur verið megin­drif­kraftur verðbólgu síðustu ár en án húsnæðis hækkaði vísi­tala neyslu­verðs um 2,8% í október frá síðasta ári.

„Hag­kerfið hefur kólnað og þó að stýri­vextir hafi lækkað um 25 punkta í október er aðhald peninga­stefnunnar enn mikið. Þá hefur gengi krónunnar styrkst á síðustu mánuðum, verðbólga er­lendis hjaðnað og olíu­verð á heims­mörkuðum lækkað. Hóf­legir kjara­samningar til lengri tíma styðja einnig við hjöðnun verðbólgu. Út­lit er fyrir að vísi­tala neyslu­verðs hækki að meðaltali um 5,9% á þessu ári og um 3,8% árið 2025,” segir í spánni.

Hag­stofan telur enn ríkja óvissu um áhrif út­færslu á breyttu fyrir­komu­lagi á inn­heimtu veg­gjalda í vísitölunni í byrjun árs 2025 en áætlað er að af­nám bensín- og olíu­gjalda lækki vísitölu neyslu­verðs en á móti er gert ráð fyrir að álagning kíló­metra­gjalds vegi rúm­lega á móti til hækkunar.

Í spá Hag­stofunnar er gert ráð fyrir að verg lands­fram­leiðsla aukist um 0,1% í ár.

Sam­kvæmt þjóðhags­reikningum dróst verg lands­fram­leiðsla saman um 1,9% á fyrri hluta ársins sem ein­kenndist af neikvæðum áhrifum utan­ríkis­við­skipta og birgða­breytinga, m.a. vegna loðnu­brests.

„Mestur var sam­drátturinn á fyrsta árs­fjórðungi en reiknað er með hag­vexti á seinni hluta ársins, þá er gert ráð fyrir viðsnúningi í utan­ríkis­við­skiptum og hóf­legum vexti einka­neyslu. Árið 2025 er spáð 2,4% hag­vexti sem byggist á áfram­haldandi vexti einka­neyslu og bata í utan­ríkis­við­skiptum. Árið 2026 er hag­vöxtur áætlaður 2,7% og að vöxturinn verði á breiðum grunni.“

Helstu óvissuþættir í spá Hagstofunnar eru: Náttúruhamfarir á Reykjanesi, verðbólguþróun., aukin spenna í alþjóðasamskiptum, stríðsátök og alþjóðlegar efnahagshorfur.