Verðbólguspá greiningardeildar Íslandsbanka gerir ráð fyrir áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði.
Í spá bankans er gert ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,4% í október frá fyrri mánuði en gangi spáin eftir verður verðbólga á ársgrundvelli 5,2%. Samkvæmt spánni mun verðbólga hjaðna áfram á næstunni og mælast undir 5% í árslok.
Að mati greiningardeildarinnar mun reiknuð húsaleiga hækka um 0,4% og hefur 0,08% áhrif á VNV milli mánaða sem er nokkru minni hækkun en sést hefur undanfarna mánuði, að júlí undanskildum þegar þessi liður hækkaði um 0,46% frá fyrri mánuði.
„Hægari hækkunartaktur skýrist einkum af minni spennu á leigumarkaði upp á síðkastið sem og minni hækkunum af völdum vísitölutryggingar leigusamninga. Þar sem reiknuð húsaleiga hækkaði um 2% milli mánaða í október á síðasta ári skýra grunnáhrif í undirliðnum hjöðnun 12 mánaða verðbólgu að mestu leyti. Næstu mánuði er útlit fyrir hægari hækkunartakt reiknaðrar húsaleigu og ólíklegt að hækkun muni mælast yfir 1% á næstunni,” segir í spá bankans.
Greiningardeildin metur það svo að flugfargjöld muni vega þyngst í mælingunni en því er spáð að lækkun septembermánaðar gangi til baka í október.
„Hækkunin er hluti af árstíðasveiflu flugfargjalda en sveiflan er alla jafna ekki eins skýr í október og í öðrum mánuðum. Flugfargjöld hækka um 6,8% milli mánaða (0,12% áhrif á VNV) samkvæmt okkar spá og vega þar með þyngst til hækkunar VNV í október. Horfur eru á að flugfargjöld lækki aftur í nóvember en hækki svo á ný í desember eins og venjan er.”
Matvöruverð hækkar
Þá gerir bankinn ráð fyrir að matar- og drykkjarvara hækki um 0,5% í verði og hafi 0,08% áhrif á VNV milli mánaða. Matarvara vegur því jafn þungt til hækkunar VNV og reiknuð húsaleiga.
„Hækkunin kemur í kjölfar lækkana í ágúst og september en rétt er að benda á að allmiklar hækkanir áttu sér stað mánuðina á undan. Við teljum síðustu stóru áhrif innkomu nýrrar dagvöruverslunar hafa komið fram í september, í bili að minnsta kosti.“
Stærsti óvissuþátturinn í mælingum bankans til skemmri tíma eru áhrif niðurfellingar olíugjalda og innleiðingar kílómetragjalds sem taka gildi um áramótin en óljóst er hver áhrifin verða á vísitölu neysluverðs.
„Áhrifin fara að öllum líkindum eftir flokkun kílómetragjaldsins en ef það verður eyrnamerkt samgönguframkvæmdum í fjárhag ríkissjóðs verða áhrifin lítil sem engin. Ef það verður hins vegar ekki eyrnamerkt, og meðhöndlað eins og hver annar beinn skattur af Hagstofunni, þá teljum við áhrifin á VNV verða veruleg.“
Bankinn spáir um 5% verðbólgu í janúar en þar er gert ráð fyrir að breytingar á skattlagningu ökutækja hafi ekki áhrif á útreikning Hagstofunnar.