Verð­bólgu­spá greiningar­deildar Ís­lands­banka gerir ráð fyrir á­fram­haldandi hjöðnun næstu mánuði.

Í spá bankans er gert ráð fyrir að vísi­tala neyslu­verðs hækki um 0,4% í októ­ber frá fyrri mánuði en gangi spáin eftir verður verð­bólga á árs­grund­velli 5,2%. Sam­kvæmt spánni mun verð­bólga hjaðna á­fram á næstunni og mælast undir 5% í árs­lok.

Að mati greiningar­deildarinnar mun reiknuð húsa­leiga hækka um 0,4% og hefur 0,08% á­hrif á VNV milli mánaða sem er nokkru minni hækkun en sést hefur undan­farna mánuði, að júlí undan­skildum þegar þessi liður hækkaði um 0,46% frá fyrri mánuði.

„Hægari hækkunar­taktur skýrist einkum af minni spennu á leigu­markaði upp á síð­kastið sem og minni hækkunum af völdum vísi­tölu­tryggingar leigu­samninga. Þar sem reiknuð húsa­leiga hækkaði um 2% milli mánaða í októ­ber á síðasta ári skýra grunn­á­hrif í undir­liðnum hjöðnun 12 mánaða verð­bólgu að mestu leyti. Næstu mánuði er út­lit fyrir hægari hækkunar­takt reiknaðrar húsa­leigu og ó­lík­legt að hækkun muni mælast yfir 1% á næstunni,” segir í spá bankans.

Greiningar­deildin metur það svo að flug­far­gjöld muni vega þyngst í mælingunni en því er spáð að lækkun septem­ber­mánaðar gangi til baka í októ­ber.

„Hækkunin er hluti af árs­tíða­sveiflu flug­far­gjalda en sveiflan er alla jafna ekki eins skýr í októ­ber og í öðrum mánuðum. Flug­far­gjöld hækka um 6,8% milli mánaða (0,12% á­hrif á VNV) sam­kvæmt okkar spá og vega þar með þyngst til hækkunar VNV í októ­ber. Horfur eru á að flug­far­gjöld lækki aftur í nóvember en hækki svo á ný í desember eins og venjan er.”

Matvöruverð hækkar

Þá gerir bankinn ráð fyrir að matar- og drykkjar­vara hækki um 0,5% í verði og hafi 0,08% á­hrif á VNV milli mánaða. Matar­vara vegur því jafn þungt til hækkunar VNV og reiknuð húsa­leiga.

„Hækkunin kemur í kjöl­far lækkana í ágúst og septem­ber en rétt er að benda á að all­miklar hækkanir áttu sér stað mánuðina á undan. Við teljum síðustu stóru á­hrif inn­komu nýrrar dag­vöru­verslunar hafa komið fram í septem­ber, í bili að minnsta kosti.“

Stærsti ó­vissu­þátturinn í mælingum bankans til skemmri tíma eru á­hrif niður­fellingar olíu­gjalda og inn­leiðingar kíló­metra­gjalds sem taka gildi um ára­mótin en ó­ljóst er hver á­hrifin verða á vísi­tölu neyslu­verðs.

„Á­hrifin fara að öllum líkindum eftir flokkun kíló­metra­gjaldsins en ef það verður eyrna­merkt sam­göngu­fram­kvæmdum í fjár­hag ríkis­sjóðs verða á­hrifin lítil sem engin. Ef það verður hins vegar ekki eyrna­merkt, og með­höndlað eins og hver annar beinn skattur af Hag­stofunni, þá teljum við á­hrifin á VNV verða veru­leg.“

Bankinn spáir um 5% verð­bólgu í janúar en þar er gert ráð fyrir að breytingar á skatt­lagningu öku­tækja hafi ekki á­hrif á út­reikning Hag­stofunnar.