Markaðsaðilar spá því að Seðlabanki Bandaríkjanna muni lækka stýrivexti fimm sinnum í ár en tollastefna Donald Trump Bandaríkjaforseta hefur ýtt undir áhyggjur um samdrátt í heimshagkerfinu. Bloomberg greinir frá.
Verðlagning á afleiðumörkuðum gefur til kynna að markaðsaðilar vænti þess að stýrivextir Seðlabanka Bandaríkjanna verði 1,25 prósentustigum lægri í lok árs. Í byrjun síðustu viku gaf verðlagning á mörkuðum til kynna að markaðsaðilar ættu aðeins von á þremur 25 punkta lækkunum í ár.
Hraðar og miklar breytingar á markaðnum eru sagðar endurspegla ótta um áhrifa tollanna sem Trump tilkynnti í síðustu viku. Bandaríkjaforsetinn sagði blaðamönnum í gærkvöldi að „gleyma mörkuðum um stund“.
Í umfjöllun Bloomberg segir að fjárfestar séu að losa um áhættusamar fjárfestingar og kaupa skuldabréf í auknum mæli. Fyrir vikið sé ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa að lækka talsvert.
Ávöxtunarkrafa á tveggja ára ríkisskuldabréfum, sem hreyfist hvað mest í takti við peningastefnu bandaríska seðlabankans, hefur lækkað um 10 punkta í morgun og stendur nú í 3,57%.
Haft er eftir einum greinanda að markaðurinn þrái stefnubreytingu frá Hvíta húsinu eða seðlabankanum. Hvorugt virðist þó líklegt eins og sakir standa. Útlit sé því fyrir krefjandi aðstæður á mörkuðum á næstunni.