Greiningardeild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,15% á milli mánaða í júlí og að verðbólga aukist úr 5,8% í 5,9%.
Landsbankinn gerir ráð fyrir að júlímánuður verði nokkuð dæmigerður þar sem sumarútsölur verða til lækkunar á vísitölunni en flugfargjöld til útlanda til hækkunar.
Þá spáir greiningardeildin nokkurn veginn óbreyttri verðbólgu í ágúst og september, en að verðbólga hjaðni í 5,4% í október.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,48% á milli mánaða í júní og við það hjaðnaði ársverðbólgan úr 6,2% í 5,8%, sem var í samræmi við fyrri spá Landsbankans.
Reiknuð húsaleiga, flugfargjöld til útlanda og hótelgisting höfðu mest áhrif til hækkunar í júní en föt, húsgögn, bílar og bensín höfðu áhrif til lækkunar.
„Verð á fötum og skóm hækkar alla jafna á milli mánaða nema í janúar og júlí, þegar stóru útsölurnar hefjast. Eitthvað hefur hins vegar borið á tilboðum og útsölum það sem af er ári og verð hefur lækkað bæði nú í júní (-0,9% á milli mánaða) og í apríl (-0,4% á milli mánaða) í ár. Við teljum að sumarútsölurnar verði nokkuð góðar í ár og að föt og skór lækki um 9,2% á milli mánaða (-0,35% áhrif) og húsgögn og heimilisbúnaður o.fl. lækki um 1,3% á milli mánaða (-0,07% áhrif)“ segir í hagsjá bankans.