Hagfræðideild Landsbankans spáir því að verðbólga hjaðni lítillega og fari úr 4,2% í 4,0% í júlí. Gangi spá bankans eftir verður verðbólga á bilinu 4,0-4,4% út október næstkomandi.

„Spáin er aðeins lægri en síðasta spá, sem við birtum daginn sem Hagstofan birti verðbólgutölur í júní. Breytingin skýrist af hagstæðari þróun gengis og olíuverðs en við gerðum ráð fyrir þá,“ segir í grein á vef bankans.

Verðbólga mældist 4,2% í júnímánuði og jókst um 0,4 prósentustig frá fyrri mánuði. Verðbólgumælingin var talsvert yfir spám greiningardeilda bankanna.

Hagfræðideild Landsbankans segir að þráláta verðbólgu megi að langmestu leyti rekja til verðhækkana á matvöru og hækkandi húsnæðiskostnaðar.

„Matur og drykkjarvörur eru 15% af neyslukörfunni, en verðhækkanir á mat og drykk skýra 22% af verðbólgunni. Húsnæðiskostnaður á 29% hlutdeild í körfunni en húsnæðisverðshækkanir skýra nú 50% af verðbólgunni. Ef litið væri fram hjá kostnaði við mat og húsnæði væri verðbólga nú um 2%.“

Hagfræðideildin spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,26% milli mánaða í júlí.

„Að vanda má búast við að árstíðabundnar hækkanir á flugfargjöldum til útlanda og sumarútsölur á fötum og skóm hafi mest áhrif á vísitöluna í júlí.“

Landsbankinn spáir því að ársverðbólga verði 4,0% í júlí, 4,1% í ágúst, 4,3% í september og 4,4% í október.