Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,3% í ágúst sem myndi hafa í för með sér að ársverðbólga myndi hjaðna úr 6,3% í 6,2%. Hagstofa birtir verðbólgutölur á fimmtudaginn 29. ágúst.
Íslandsbanki gerir ráð fyrir að liðurinn ferðir og flutningar muni vega nokkuð þungt til lækkunar á vísitölunni í ágúst þar sem búist er við að bæði flugfargjöld og eldsneyti lækki. Á móti vegi áhrif útsöluloka til hækkunar vísitölunnar.
Bráðabirgðaspá Greiningar Íslandsbanka gerir ráð fyrir að ársverðbólga verði 6,1% í september, 5,6% í október og 5,5% í nóvember.
„Samkvæmt okkar spá er ekki lækkun [vísitölu neysluverðs] í kortunum næstu mánuði en ársverðbólga mun þó hjaðna þrátt fyrir það. Hjöðnunin verður hraðari þegar líða fer á haustið,“ segir í grein á vef bankans.