Geimfyrirtæki Elon Musk, SpaceX, mun fjárfesta fyrir tvo milljarða dala í gervigreindarfyrirtækinu xAI. Á vef WSJ segir að fjárfestingin sé hluti af fimm milljarða dala hlutafjáraukningu xAI sem greint var af Morgan Stanley í síðasta mánuði.
Musk hefur áður notað önnur fyrirtæki sín til að styðja við gervigreindarfyrirtækið sem á í harðri samkeppni við fyrirtæki eins og OpenAI.
Samfélagsmiðillinn X sameinaðist fyrr á þessu ári við xAI í 113 milljarða dala samruna en Musk hefur einbeitt sér að þróun gervigreindarforritsins Grok frá því hann lét af störfum sem ráðgjafi ríkisstjórnar Donalds Trumps.
Grok sér m.a. um að reka þjónustuver SpaceX og Starlink og samkvæmt WSJ eru líkur á aukinni notkun forritsins innan SpaceX, samkvæmt fulltrúum Musks.