Spænska ríkisstjórnin kom þriggja ára framlengingu á hvalrekaskatti á banka í gegnum þingið á síðustu stundu í gær eftir að hafa tryggt sér stuðning frá smáum vinstriflokki, að því er segir í frétt Bloomberg.

Skatturinn, sem var upphaflega kynntur sem einskiptis skattur fyrir nokkrum árum, hefði annars runnið sitt skeið um áramótin.

Jafnframt hækkar upphaflega 4,8% skattprósentan upp í 7% fyrir stærstu banka Spánar, þ.e. banka með yfir 5 milljarða evra í vaxta- og þóknanatekjur. Þannig er gert ráð fyrir að hæsta þrepið nái til banka á borð við Banco Santander SA og BBVA SA. Skatturinn verður hins vegar 1% fyrir smærri banka.

Hlutabréfaverð Santander hefur lækkað um meira en 4% í dag og hlutabréf BBVA hafa fallið um tæplega 2%. Hlutabréfaverð Unicaja Banco SA sem er talið að muni njóta góðs af breytingunni fyrir smærri banka, hefur lækkað lítillega í viðskiptum dagsins.

Samtök fjármálafyrirtækja á Spáni fordæmdu ákvörðunina og sögðu ferlið óreiðukennt og ógagnsætt. Samtökin sögðu skattlagninguna ekki eiga sér hliðastæðu meðal annarra ríkja innan Evrópusambandsins.

Ríkisstjórnin sagði að lánveitendur í landinu hefðu notið verulega góðs af hærra vaxtastigi á síðasta ári, og ágóði það ætti að endurspeglast í skattlagningu. Arðsemi spænskra banka hefði aukist umtalsvert og sumir bankar hefðu skilað sínum hæsta hagnaði á síðasta ári.