Bandaríska lággjaldaflugfélagið Spirit Airlines hefur sótt um greiðsluskjól hjá dómstóli í suðurhluta New York. Flugfélagið reynir nú að endurskipuleggja skuldastöðu sína eftir misheppnaðan samruna við JetBlue.
Wall Street Journal greinir frá þessu en miðillinn sagði fyrr í þessum mánuði að flugfélagið væri þegar byrjað að undirbúa gjaldþrot.
Árið 2022 samþykkti Spirit Airlines að sameinast öðru lággjaldaflugfélagi, Frontier Airlines. JetBlue mætti síðan skyndilega með betra tilboð og vann sér inn stuðning frá fjárfestum. Alríkisdómari bannaði hins vegar JetBlue að kaupa Spirit í janúar á þessu ári og sagði að samruninn myndi skaða neytendur.
Í kjölfar úrskurðarins byrjaði Spirit að skoða endurskipulagningarviðræður við skuldabréfaeigendur sína en flugfélagið hefur neyðst til að segja upp flugmönnum og selja flugvélar úr flota sínum.