Heildararðgreiðslur sem hafa verið tilkynntar á aðalmarkaði Kauphallarinnar það sem af er þessu ári nema ríflega 64 milljörðum króna og er um að ræða rúmlega þreföldun frá síðasta ári samkvæmt gögnum sem Kóði tók saman fyrir Viðskiptablaðið. Þá eiga Hagar eftir að gefa út tillögur um ráðstöfun hagnaðar og verða heildararðgreiðslur á árinu því líklega hærri.
Mestu munar um arðgreiðslur Arion banka og Íslandsbanka, en Arion banki hyggst greiða 22,5 milljarða í arð í ár, sem er u.þ.b. 20 milljörðum hærra en í fyrra. Þá hyggst Íslandsbanki greiða 11,9 milljarða í arð, en þetta er fyrsta arðgreiðsla bankans frá skráningu. Til samanburðar greiddi bankinn 3,4 milljarða í arð til ríkisins í fyrra.
Að minnsta kosti 12 af félögunum á aðalmarkaði munu greiða hærri arð á þessu ári en í fyrra, Síminn og Marel munu greiða sambærilegan arð en fimm félög hafa gefið út að þau muni ekki greiða arð í ár. Um er að ræða félögin Iceland Seafood, Icelandair, Kvika, Origo og Sýn en þau greiddu heldur ekki út arð til hluthafa í fyrra.
VÍS með hæsta arðgreiðsluhlutfallið
Heildararðgreiðslur félaganna segja þó einungis hluta sögunnar, en fjárfestum er gjarnan annt um svokallað arðgreiðsluhlutfall (e. dividend yield), sem lýsir ávöxtun þeirra af hlutabréfafjárfestingu sinni í formi arðgreiðslna - reiknað sem arður á hlut í hlutfalli við verð hlutarins.
Frá sjónarhóli fjárfestis sem keypti eitt bréf í öllum félögunum á aðalmarkaði í ársbyrjun var arðgreiðsluhlutfallið hæst hjá VÍS á árinu, 9,6 prósent, en það er 3,9 prósentustigum hærra en árið á undan. Annað tryggingarfélag, Sjóvá, kemur í kjölfarið með arðgreiðsluhlutfall upp á 8,3 prósent, sem er 1,3 prósentustigum hærra en í fyrra. Hástökkvarinn Arion banki er í þriðja sæti með arðgreiðsluhlutfall upp á 7,9 prósent samanborið við 1,8 prósent í fyrra. Til samanburðar er arðgreiðsluhlutfall Íslandsbanka 4,7 prósent.
Lægst eru arðgreiðsluhlutföllinn hjá Símanum (0,6 prósent) og Marel (0,8 prósent) en þau dragast lítillega saman á milli ára. Meðal fasteignafélaganna þriggja er Eik með hæsta arðgreiðsluhlutfallið, eða 4,0 prósent, en hlutfall Regins er 2,4 prósent og Reita er 2,0 prósent.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .